Ferðin í Bahria eyðimörkina
We've been through the desert on a horse with no name
It felt good to be out of the rain
In the desert you can remember your name cause there aint no one for to give you no pain
La, la la, la la la...
Á fimmtudaginn ákváðum við að það væri tími til komin að taka frí frá látunum og menguninni í borginni og skella okkur á frekari vit ævintýranna í eyðimörkinni.
Við vorum 7 sem fórum, 4 ameríkanar, 1 íri og við tvær. Við vissum lítið hvernig planið væri því eins og svo margt annað hjá okkur þá var þetta skyndiákvörðun og ekki voru bílstjórarnir að deila ferðaáætluninni með okkur. Eftir langa bílferð út í óvissuna og stopp í mestu ógeðisbúllu sem að við höfum pissað í (trúið okkur það er mun verra en það sem þið eruð að ímynda ykkur) komumst við loks á leiðarenda á hótel í Bahria eyðimörkinni. Þar var okkur hent út og við tók Ahmed (já Sindri auðvitað heitir hann Ahmed hehe...) sem var leiðsögumaðurinn okkar í þessari ferð. Þar fengum við að borða og síðan var haldið út fyrir bæinn á jeppum og inn í eyðimörkina. Settar voru upp búðir og kveiktur varðeldur. Búðirnar samanstóðu af smá skjólvegg og teppum á sandinum. Svo var boðið uppá te og byrjuðu leiðsögumennirnir og bílstjórarnir að spilað á tublu (einskonar tromma), gítar og flautu og að sjálfsögðu var sungið hástöfum með og dansaður magadans. Og athugið að þetta voru bara karlmenn og við komust ekki með tærnar þar sem þeir hafa hælana í magadansinum. Frekar neyðarlegt. Fyrsta nóttin að sofa undir berum himni var frekar erfið. Við vorum uppá smá hæð og það var frekar kalt, eiginlega bara mjög kalt og þ.a.l. lítið sofið.
Daginn eftir skoðuðum við Svörtu eyðimörkina sem er reyndar ótrúlega lík íslensku hálendi fyrir utan hitann, fórum í sund og lögðum okkur undir pálmatrjám í einum af bæjunum sem hafa vaxið kringum uppsprettu í eyðimörkinni. Síðan keyrðum við í Hvítu eyðimörkina þar sem áætlað var að gista um nóttina. Okkur fannst Hvíta eyðimörkin miklu skemmtilegri og fallegri. Þar settum við upp búðir og við bættust 5 hressir spánverjar sem hafa verið vinir síðan þeir voru 5 ára og fóru í þessa ferð til að halda uppá að þeir verða allir 40 ára á árinu. Við fylgdumst með sólinni setjast og tunglinu koma upp sem var ótrúlega fallegt. Seinni nóttin var mun þægilegri en sú fyrri. Ekki eins kalt og kannski vorum við bara farnar að venjast þessum aðstæðum. Það sem kom okkur á óvart við eyðimörkina er að það er ótrúlega lítið af pöddum og dýrum. Eina sem við sáum voru bjöllur og eyðimerkurrefur.
Næsta dag var rúntað um hvítu eyðimörkina og svo keyrt tilbaka til Cairó. Það var svo gott að komast úr óreiðunni og látunum í borginni og upplifa ró og næði. Fyrsta kvöldið minnti okkur eiginlega á gömlu góðu dagana heima á Djúpavogi þegar maður lá í grasinu og fylgdist með stjörnunum og manni leið eins og maður væri einn í heiminum.
Núna erum við sem sagt komnar aftur í borgina og aðeins 1 vika eftir af námskeiði 1 og eftir það tekur við vikufrí og verðum við að fara að plana eitthvað spennandi að gera í fríinu. Kannski skellum okkur til Rauða hafsins og fá smá lit.
Biðjum að heilsa í bili, knús og kossar Ragna og Halla
P.s. settum inn myndir úr ferðinni og ýmsar myndir frá fyrstu dögunum.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim