Halla og Ragna blogga frá Árósum

miðvikudagur, október 04, 2006

Inta magnun walla eh?

Ramadan er í fullum gangi eins og kom fram í síðasta bloggi. Það er ýmislegt sem maður þarf að taka tillit til í þessum mánuði. T.d. er ekki viðeigandi að drekka eða borða fyrir framan þá sem eru að fasta á daginn sem getur stundum verið mjög erfitt því lang flestir hérna eru að fasta og þegar hitinn er yfir 30 gráður þá er mjög freistandi að grípa í vatnsflöskuna. Á daginn eru allir veitingastaðir og öll kaffihús tóm en samt sem áður 5-10 manns að vinna en það þýðir alls ekki að maður geti búist við betri og hraðari þjónustu.

Eftir klukkan 6 á daginn lifnar yfir öllu eða þegar heyrist í hátölurum, sem staðsettir eru víða um borgina og í sjónvarpinu, "Allahu Akbar" sem þýðir Guð er mikill/mestur og þá má fólk byrja að borða. Í Ramadan mánuði er mest líf á kvöldin og langt fram á nótt því fólk er að borða fram eftir öllu. Flestir sofa lítið eða bara á daginn. Þetta er svipað og þegar klukkan slær 6 á aðfangadag og við segjum að jólin séu komin. Stemningin er líka svipuð og á jólunum, seríur út um allt og veitingastaðir skreyttir. Góðmennskan ræður ríkjum. Ríka fólkið setur upp borð- og stólaraðir víða um borgina og gefa fátækum og þeim sem ekki komast heim fyrir "breakfast" mat og drykki. Þetta kalla þau "matarborð Guðs" og fólkið sem gefur matinn getur hugsað sem svo að þau fasti 1 aukadag fyrir hvern sem þau fæða og með því ávinna þau sér æðri stað á himnum þegar þar að kemur. Það eru líka margir sem standa úti á götum og gefa vegfarendum drykki, döðlur og brauð fyrir t.d. leigubílstjórana sem komast ekki heim í mat. Allir eru mjög vinalegir og ánægðir. Sumir panta líka marga matarskammta frá veitingastöðum og keyra út úr bænum og gefa fólki sem er að ferðast og hefur ekki tíma til að stoppa og njóta "breakfast".

Það er líka hefð að fórna dýrum í Ramadan mánuði og urðum við vitni að því þegar nauti var fórnað hinum megin við götuna þar sem við búum. Eina stundina var það sprelllifandi og nokkrum mínútum seinna var dýrið steindautt. Það voru margir sem söfnuðust saman til að fylgjast með þessari athöfn.

Eins og er eigum við okkur ekki mikið félagslíf. Skólinn er frá níu til hálf fjögur á daginn og yfirleitt eftir skólann erum við búnar á því út af hitanum, menguninni og strembnu prógrammi í skólanum. En planið er að gerast meðlimir í stærsta tómstundaklúbbi sem við höfum augum litið. Þetta er í raun eins og lítið þorp inni í miðri Cairo eða eins og vin í eyðimörkinni. Þarna er tækjasalir, tennisvellir, fótboltavellir, hlaupabrautir, sundlaug, veitingastaðir, kaffihús, bókasafn og margt fleira. Þarna getur maður hangið tímunum saman og fengið frið frá látunum og stressinu í borginni. Meðlimir þessa klúbbs eru ríkir egyptar, ameríkanar og evrópubúar.

Í kvöld er stefnan tekin á City Star, stærstu og flottustu verslunarmiðstöðina hér í Cairo.

Biðjum að heilsa í bili, ma´a salama!

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim