Halla og Ragna blogga frá Árósum

föstudagur, október 20, 2006

It´s a jungle out there!


Smá munur á þessum stöðum. Það búa 19.999.500 fleiri í Cairo en á Djúpavogi. Við búum þarna í 3. byggingunni til hægri í vinstra horninu, þar sem þvotturinn hangir úti á svölum :) Við erum að veifa! Sjáiði okkur? Sá sem verður fyrstur að finna okkur hefur unnið sér inn ferð til Egyptalands, aðra leið og frí gisting í eyðimörkinni.....

Egyptar elska hávaða. Hvar sem þú ferð inn í búð, á kaffihús eða veitingahús er tónlistin í botni og í umferðinni eru allir að öskra á alla en samt eru þeir eiginlega bara að spjalla. Allt hérna tekur 1 mínútu segja þeir (sem er að sjálfsögðu alltaf miklu meira en 1 mínúta) t.d. um daginn þegar við vorum að taka leigubíl, reyndar þegar Iftar var að byrja (þegar þeir mega byrja að borða aftur á daginn), þá stoppaði hann bílinn náttúrulega í eina mínútu til þess að sækja sér mat og við biðum bara sallarólegar á meðan en auðvitað tók þetta mun lengri tíma.

En nú er Ramadan að verða búin eða nánar tiltekið á mánudaginn er síðasti dagurinn, Ilhamdulillah (Guði sé lof), enda er þetta orðið ágætt. Nóg komið af detoxi og tími til kominn að sjá hvernig daglegt líf er í raun og veru. En fyrst tekur Eid við sem er viku frí frá skólum og vinnu og þá fara flestir (sem hafa efni á því) út úr borginni og á Sharm el Sheikh eða aðrar ferðamannaparadísir sem liggja við Rauðahafið eða Miðjarðarhafið. Þá verður aldeilis slett úr klaufunum.

Við förum með Souzane vinkonu okkar og Egypskri vinafjölskyldu hennar til Iskandiriyya sem liggur við Miðjarðarhafið. Þau eiga víst villu þarna og einhvern hluta af ströndinni þannig að þetta hljómar alltaf mjög vel. Alls ekki slæmt fyrir Höllu og Rögnu.

Við erum búnar að vera töluvert aktívar í félagslífinu síðastliðnu þrjú kvöld sem að telst nú til tíðinda. Fyrsta kvöldið fórum við saman nokkur úr skólanum á kaffihús og það var mjög notalegt. Kynntumst fleirum m.a. einum Íra og stelpu frá Svíþjóð. Alltaf gaman að hitta aðra útlendinga því að yfirleitt eru flestir að upplifa það sama sérstaklega stelpurnar.
Á fimmtudaginn fórum við með Souzane og nokkrum vinum hennar út að borða Iftar á Níl. Eftir matinn keyrðum við í City Star (verslunarmiðstöð) sjö saman í bíl, tveir í skottinu, og ferðin tók um 40 mínútur og á leiðinni var hlustað á kassettu með Ace of Base. Frekar skondið.
Eins og við höfum áður sagt þá er umferðin hérna vangefin. Allir flautandi og öskrandi á alla. Þetta virkar þannig að þú ferð á einhverja ákveðna skrifstofu, borgar 20 gineh (300 íslenskar krónur) og færð ökuskírteini og reglurnar eru þannig að það eru engar reglur. Og það er best að halda því þannig. Enginn notar bílbelti og hefur maður séð þó nokkur Britney Spears atvik þar sem krakkinn situr í fanginu á foreldri sínu sem er að keyra. Kannski að Britney ætti að flytja hingað þá yrði hún ekki fyrir svona miklu böggi út af þessu.

Í gær fórum við með Souzane á Grand Hyatt hótelið við Níl og sátum þar með nokkrum vinum vina hennar og spiluðum Taboo, hlustuðum á Egypta syngja karokee og drukkum Sahlab (heitur mjólkurbúðingur með kókos, rúsínum eða því sem maður vill og er hrikalega gott) og reyktum Sisha (vatnspípa með ávaxtatóbaki). Fórum heim um tvöleytið en þá voru flestir að panta sér að borða og þar sem við erum ekki að fasta þá drifum við okkur heim svo við myndum ekki troða okkur út af mat því að maturinn hérna er svo góður og erfitt að standast freistingarnar.

Settum inn myndir frá liðinni viku og nokkrar myndir af íbúðinni þar sem var hoppukeppni í gangi og sést greinilega að Halla er sigurvegari en aldrei að vita nema að það verði "rematch" seinna.

Segjum þetta gott í bili, knús og kram

Fatíma og Aisha (nýju nöfnin okkar)

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim