Halla og Ragna blogga frá Árósum

sunnudagur, október 08, 2006

Welcome to Egypt

Fyrir þá sem eru að íhuga að fara í meðferð... gleymið því. Komiði bara hingað. Við gerðum okkur ekki alveg grein fyrir þessu áður en við komum en núna skiljum við af hverju mamma hvatti okkur svona mikið til þess að fara. Kannski þess vegna sem að við erum búnar að vera svona þreyttar og líða hálf skringilega... við erum bara með fráhvarfseinkenni. Reyndar er almennt drukkið hérna en í Ramadan mánuði er það alveg bannað. En það má ekki vera með áfengi út á götu eða vera fullur út á götu. Og það er strangt tekið á því ekki svona eins og heima. Múslimar mega strangt til tekið ekki drekka áfengi en sumir fara ekki eftir því, eins og gengur og gerist, þannig að þetta gæti breyst eftir Ramadan. Í stað áfengisdrykkja eru nýkreistir ávaxtasafar sem eru reyndar mjög ljúffengir.

Við erum tvisvar búnar að fara út á lífið hérna á staði sem eru báðir við Níl og til þess að komast inn þurftum við að vera á gestalista. Báðir mjög flottir staðir og mjög ólíkt því sem við sjáum á götunum. Þarna kemur fólk og borðar fram eftir öllu, af því að það er Ramadan, reykir Sisha (ávaxtatóbakspípa), spilar jafnvel og hefur gaman. Mjög skrítið að fylgjast með öllum þessum fjölda fólks vera að skemmta sér ÁN áfengis.

Ramadan er mjög heilagur mánuður og það er margt sem að fólk gerir ekki. T.d. má ekki dansa, drekka, segja eitthvað ljótt, hugsa eitthvað ljótt og fólk reynir að vera ekki með neitt bögg við hvort annað.

Okkur finnst frekar erfitt að venjast áreitinu hérna því að við skerum okkur svolítið úr með ljóst hörund og ljóst hár og þar sem við búum er ekki mikið af ferðafólki svo að það er sífellt verið að flauta og kalla á okkur. Flestir eru meinlausir en auðvitað er fólk hérna sem er ekki meinlaust eins og alls staðar. Þeir eru reyndar mjög forvitnir og spyrja oft persónulegra spurninga eins og ertu gift eða ertu múslimi og það er mjög eðlilegt. Best er að segjast vera giftur eða í sambandi. Þeir spurja líka alltaf hvaðan við erum og hvað við heitum því að hérna þýða nöfnin þeirra alltaf eitthvað. Við segjum alltaf þeir því að það er svo miklu meira af karlmönnum alls staðar og því tókum við strax eftir. Það eru yfirleitt bara karlar að vinna á kassa í búðum, í kvenfatabúðum, á veitingastöðum og kaffihúsum. Alls staðar sem maður fer heyrir maður welcome...welcome to Egypt... Þetta virðist vera það eina sem þeir kunna í ensku en annars tala þeir mjög litla ensku.

Það er mjög fyndið að horfa á sjónvarpið hérna þ.e.a.s. auglýsingarnar. T.d. er sms leikur í gangi þar sem þú getur unnið 1/4 kíló af gulli. Vitum ekki alveg hvernig það væri að dröslast með það heim. Getur maður t.d. borgað með gulli einhvers staðar? Svo vorum við að skipta um stöð og fórum inná stöð sem heitir Kuwait sport og þar var Kameldýrahlaup í fullum gangi. Lýsingarnar voru eins og frá hestamannamóti heima þ.e. "þetta kameldýr xxx er í eigu Ahmed Sayed sem býr í Oman". Við vorum mjög spenntar yfir þessu. Svo eru arabísku fóstbræður sem er jafn fyndið og það hljómar.

Eftir að Ramadan er búin, sem má nú alveg fara að gerast, þá er plönuð þriggja daga ferð í eyðimörkina þar sem verður sofið undir berum himni og þetta er víst besti tíminn til að fara því að þá er haustið að byrja og eyðimörkin er fallegust á þessum tíma. Ástæðan fyrir því að sofa undir berum himni er til þess að sjá stjörnurnar sem er ekki alltaf hægt því að tunglið er svo bjart. Við erum mjög spenntar yfir þessari ferð og svo ætla mamma, pabbi og Regína að koma í heimsókn svo að við höfum eitthvað til þess að hlakka til.

Biðjum að heilsa í bili

P.s. óskum Auði og Ævari innilega til hamingju með litlu krúttmundu sem fæddist 5. október sl. Við erum búnar að sjá mynd af henni og hún er æði :) Vonandi hefur litla fjölskyldan það rosa gott.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim