Halla og Ragna blogga frá Árósum

mánudagur, nóvember 06, 2006

Izzaykum?

Þá eru mamma og Gunnhildur farnar. Þetta var nú aldeilis ævintýri hjá þeim. Þær komu s.l. laugardagskvöld og við sendum mann eftir þeim á flugvöllinn sem Zakia vinkona okkar fær oft til þess að sækja gestina sína. Þannig að þarna beið maður með skilti sem á stóð Freyja og þær vissu ekkert af því að við kæmum ekki svo að mamma hélt að það væri ferðaskrifstofa sem héti Freyja og fannst það stórmerkilegt. En það kom fljótt í ljós að þessi maður var á okkar vegum svo að hann reddaði öllu fyrir þær og þær voru komnar heim til okkar örugglega innan við klukkutíma frá því að þær lentu.

Þar sem að við vorum eða áttum að vera í skólanum þá gátum við ekki mikið verið með þeim á daginn en þær voru duglegar að fara sjálfar, sem getur verið svolítið mál, og þær fóru náttúrulega að skoða pýramídana, egypska safnið, í siglingu á Níl og Khan al Khalili sem að er hverfi með fullt af mörkuðum og m.a. kaffihúsi sem að er búið að vera opið á hverjum degi og hverri nóttu í yfir tvöhundruð ár. Þannig að þær fóru heim hlaðnar minningum og minjagripum frá Egyptalandi.

Þegar maður fer til Egyptalands þá þarf maður að fá sér vegabréfsáritun til þess að komast inn í landið. Þetta gildir yfirleitt í mánuð nema maður hafi reddað því áður en maður kom eins og margir gera. Eftir þennan mánuð þarf að framlengja vegabréfsáritunina í ráðhúsinu hérna sem er niðrí bæ svo að það sé hægt að komast aftur úr landinu. Þetta þurftum við náttúrulega að gera og við vorum búnar að heyra að þetta væri algjört helvíti svo að þetta var ekki beint tilhlökkunarefni. Þetta virkar þannig að það eru fimmtíu básar og þarna er troðið af fólki frá öllum þjóðum og heilu fjölskyldurnar oft. Sumir að fá vegabréfsáritun og aðrir að fá landvistarleyfi eða sækja um hæli sem flóttamenn o.s.frv. Enginn fer í röð þannig að það þarf einfaldlega að troðast. Þegar loks röðin er komin að manni sjálfum þá er manni bent á að fara á annan bás og ef maður spyr spurninga þá er erfitt að fá svör og sumir sem vinna þarna tala ekki ensku. En í þetta skipti þá var gott að skera sig úr og þetta gekk ótrúlega vel miðað við það sem að við höfðum heyrt. Svo að nú erum við komnar með vegabréfsáritun fyrir næstu 6 mánuði. Ef að þetta hefði ekki gengið vel þá má alltaf reyna að borga aðeins meira og sjá hvað gerist. Það virðist allavega vera mjög algengt hérna. Frekar spillt allt saman. Næst þegar við eigum erindi hjá Sýslumanninum í Reykjavík og hlutirnir eru ekki ganga hratt þá reynir maður kannski að renna 500 kalli að afgreiðslumanninum og sjá hvað gerist. Mjög líklega verður það ekki vel liðið.

Það er mjög gaman að upplifa lífið eftir Ramadan þar sem við komum hingað þegar Ramadan var byrjaður og vissum í raun ekkert hvernig venjulegt líf í Cairó væri. Við vorum alltaf einar inná kaffihúsum og veitingastöðum að degi til. Núna er allt komið í eðlilegt form aftur. Það er samt pínu skrítið á sjá fólk borðandi og drekkandi að degi til sérstaklega kennarana en það er líka mjög fínt því þá getur maður hætt að hafa samviskubit yfir að borða og drekka fyrir framan þau. Þegar Ramadan var þá var “rush hour” um 4 leytið á daginn því allir voru að drífa sig heim fyrir Iftar og svo aftur um 11-12 leytið á kvöldin en núna er “rush hour” allan daginn sem er mjög pirrandi.
Allt í einu fórum við líka að taka eftir verslunum sem selja áfengi, ilhamdulala. Þessar verslanir heita Drinkies og eru eins ÁTVR heima nema að þær eru mjög litlar og selja 4 tegundir af bjór og nokkrar tegundir af léttvíni og vodka. Mjög fyndið miðað 20 milljóna manna borg.

Fórum í fyrsta skiptið á djammið á föstudaginn. Það var partý hjá Kevin sem að er í sama bekk og Halla. Hann býr með tveimur þjóðverjum og einum ameríkana. Þarna voru aðallega þjóðverjar og þetta var bara fínasta partý. Eftir partýið fórum ég, Ragna, Luke (er með Rögnu í bekk), Darren (er með Höllu í bekk og býr með Luke) og Martin (frá Argentínu og er með Rögnu í bekk) á stað niðrí bæ og fengu okkur nokkra bjóra og sáum sólina koma upp. Mjög skrítið að sjá Cairo á þessum tíma dags því að það var allt svo rólegt og notalegt. Mjög mikil andstæða miðað við daglegt líf hérna.

Settum inn myndir sem mamma tók þegar hún var hérna og nokkrar myndir frá djamminu á föstudaginn.

Knús, Halla og Ragna

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim