Halla og Ragna blogga frá Árósum

föstudagur, nóvember 10, 2006

Sexy, sexy, sexy!





Af hverju þurfa egyptar að gera allt með látum?!
Þetta er orðið svoldið pirrandi.
T.d. stendur karl niðri á götu og þarf að tala við konuna hérna uppá sjöttu hæð. Í staðinn fyrir að fara uppá sjöttu hæð og tala við hana þá öskrast þau á milli og maður heldur að eitthvað alvarlegt hafi gerst eða að þau séu að hnakkrífast en nei nei þau eru bara að spjalla.
Það er ekki skrýtið að við séum stundum smeyk við araba því við höldum alltaf að þau séu reið eða að rífast en svona tala þau bara saman.
Barnaskólinn hérna hliðiná er skrýtnasti skóli sem við vitum um því það eru alltaf frímínútur sem hlýtur líka að vera mjög gaman. Og allir hafa símann sinn stillt á LOUD. Það fer líka ekki framhjá neinum þegar einhverjir eru að gifta sig hérna því þá keyra allir í halarófu og flauta og flauta og FLAUTA!! Og það er ALLTAF verið að gifta sig hérna. Við þurfum að hafa sjónvarpið stillt á hæsta til að geta heyrt eitthvað í því, því hávaðinn frá götunni er svo mikill.
Svo veldur þetta keðjuverkun þannig að allir þurfa að tala hærra, hafa hærra í tónlistinni o.s.frv. Þannig að næst þegar við hittum ykkur ekki láta ykkur bregða ef við öskrum á ykkur :)

Í síðustu viku var verið að frumsýna mynd í bíói hérna niðri í bæ með frægri magadansmær sem heitir Dína. Hún var að sjálfsögðu viðstödd frumsýninguna og eftir myndina þá byrjuðu allir að klappa og hún stóð upp og byrjaði að dansa og það myndaðist þvílík stemning í bíósalnum nema hvað að strákarnir sem voru þarna æstust eitthvað upp við þetta og byrjuðu að reyna að snerta Dínu og endaði þetta með því að henni var fylgt út með aðstoð lífvarða hennar. Unga fólkið í bíóinu hélt áfram að dansa og strákarnir urðu enn æstari og byrjuðu að þukla á stelpunum sem endaði með því að þær urðu allar mjög skelkaðar og hlupu út úr bíóinu og út á götu og strákarnir á eftir þeim. Lögreglan þurfti að skakka leikinn og var þetta þvílikur skandall hérna í Caíró.
Í Egyptalandi eru lög um það að fólk má ekki sofa saman fyrr þau eru gift
Pör, meira að segja þau sem eru gift, mega ekki haldast í hendur eða kyssast úti á götu það er mjög illa liðið þ.e.a.s. ef þau eru egyptar annað gildir þó um útlendinga.

Kynlífsfræðsla hérna virðist ekki vera í forgangi og þau læra örugglega flest um kynlíf í gegnum sjónvarpið og internetið, sem er örugglega mjög hollt ekki satt?
Flestir halda t.d. að ameríkanar stundi alltaf kynlíf og geti alltaf sofið hjá. Flestir amerísku strákarnir hérna hafa sömu söguna að segja um viðbrögð egyptskra manna þegar þeir segjast vera frá Ameríku “aaa... America. You have sexy all the time, always have sexy, sexy, sexy, sexy” og með viðeigandi látbragði. Og eru vestrænar konur hérna álitnar mjög “easy” þannig að það er ekkert sérlega gaman fyrir tvær ljóshærðar stelpur eins og okkur að labba um göturnar hérna það er yfirleitt alltaf verið að kalla á okkur og svona þó svo að þetta sé alveg meinlaust þá er þetta samt mjög pirrandi. Sum svæði eru þó betri en önnur og reynum við því bara að hanga þar. Þetta er samt ágætt fyrir okkur því þetta gerir mann bara sterkari og geðillari hehe... neinei.
En við þurfum reyndar að taka fram að þetta á aðallega við um fátæka fólkið sem hefur ekki fengið góða menntun og veit hreinlega ekki betur. En við erum svo sem ekkert skárri höldum að allar konur með slæðu séu kúgaðar, sem er að sjálfsögðu ekki rétt.

Annars biðjum við bara að heilsa úr hávaðanum hérna í Caíró, Ragna og Halla

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim