Halla og Ragna blogga frá Árósum

föstudagur, nóvember 17, 2006

Inshallah!

Þetta er orð sem að maður heyrir ekki ósjaldan hérna enda er þetta inshallah samfélag. Inshallah þýðir í rauninni "ef Guð lofar" eða "God´s willing".

Settum inn þessa mynd af söngkonunni Umm Kulthum en hún er óneitanlega dýrkuð hérna. Flestir leigubílsstjórarnir hlusta á kassettur með henni, hækka í botn og syngja með.




Við furðum okkur stundum á því að miðað við fjölda starfsmanna á hverjum stað og ekki mikils fjölda kúnna hvað þjónustan getur gengið ótrúlega hægt. Það getur tekið allt upp í 20 mínútur að fá einn kaffibolla. Það er heldur ekki óalgengt að fjórir afgreiði mann í einu en samt fær maður ekki það sem maður pantaði en þá er maður hvort sem er búinn að bíða svo lengi að manni er nokkuð sama, étur eða drekkur hvað sem að kjafti kemur. Við erum allavega alltaf að sjá það meira hvað við Íslendingar erum með háan "standard" í öllu sem að við gerum. Við veitum yfirleitt mjög góða þjónustu og maturinn okkar er gríðarlega góður.

Í skólanum sem við erum í er fólk frá öllum löndum t.d. Ameríkanar, Spánverjar, Bretar, Frakkar o.fl. Reyndar er áberandi mikið af Ameríkönum hérna. Fólk er þarna af ýmsum ástæðum. Sumir vegna vinnunnar t.d. diplómatar hjá sendiráðum, blaðamenn, rithöfundar, nemendur og Arabar sem hafa alist upp í öðru landi og telja sig jafnvel ekki vera Araba en vilja læra tungumálið. Einn sem er með okkur í bekk í egypsku (talmálinu) heitir Josh og er rithöfundur. Hann er hérna í rannsóknarvinnu vegna bókar sem hann er að fara að skrifa. Hann hefur upplifað margt áhugavert hérna vegna rannsóknarvinnurnar.
Hann sagði okkur frá því að hann fór í heimsókn í fangelsi hérna með nokkrum öðrum aðilum. Þeir fóru með mat og fleira handa föngunum því að maturinn í fangelsinu er víst ógeðslegur og fangarnir mega elda sjálfir en þá þurfa þeir að kaupa matinn sjálfir og það getur verið mjög erfitt að redda því og örugglega dýrt fyrir þá. Áður en Josh fékk að fara inn þá var leitað á honum og skorið í allan mat til að ganga í skugga um að það væri ekki verið að smygla neinu inn. Eftir það fór hann upp í eins konar lest sem hann lýsti sem svona lítilli lest sem rúntar um í skemmtigörðum og máluð í alls konar litum sem hljómaði mjög kaldhæðnislega. Hann sagði okkur frá einum fanganum þarna sem hann talaði við og kom hingað frá Nígeríu fyrir átján árum með nokkrum vinum sínum. Einn vinur hans smyglaði heróíni inn í landið og reyndi að selja það en var tekinn. Í stað þess að að handtaka bara þann sem að reyndi að selja heróínið þá var allur vinahópurinn handtekinn og þessi tiltekni maður sem Josh talaði við fékk 25 ára dóm og er þegar búin að afplána 18 ár. Hann má fá heimsókn á tveggja vikna fresti og í næsta mánuði kemur pabbi hans að heimsækja hann í fyrsta skipti og verður hér í mánuð svo að hann getur hitt hann tvisvar.
Í fangelsinu búa þeir til alls konar hluti eins og perluveski og geta selt þá til þess að eignast smá pening.

Við þurfum klárlega að fylgjast með því þegar þessi bók hans Josh kemur út.

Við fórum niðrí bæ í gær með strák sem er með Höllu í bekk og er frá Alsír en ólst upp í Frakklandi. Hann er aðeins meira inní öllu hérna enda mjög óhræddur við að prófa allt og margir halda að hann sé Egypti sem getur verið ágætt stundum. Hann fór með okkur á stað sem að heitir Al Hurriya (frelsið). Þetta var mjög spes. Þetta var mjög stórt rými með fullt af borðum og stólum og nokkrum ísskápum. Annað var ekki. Þetta er nánast úti því að það voru ekki gluggar allstaðar og maður sá ketti rölta þarna um. Þetta er staður þar sem að maður getur upplifað mjög "lokal" stemningu. Það var frekar subbulegt þarna og mikið af fólki en mjög fáar konur. Þetta er víst ekki alltaf svona en þar sem það var föstudagur daginn eftir sem eru frídagar hérna þá voru óvenju margir. En þegar við fórum að líta í kringum okkur þá var mikið af útlendingum þarna og okkur var sagt að þarna kæmu egypsku blaðamennirnir og listafólkið að ræða málin. Þarna sér maður líka múslimana drekka sem að sumum þykir skrítið því að þeir halda að múslimar drekki ekki. Eftir einn bjór fórum við á annan stað sem heitir Stella og hann er pínulítill og þar kemur líka mikið af innfæddum og þar eru yfirleitt sömu kúnnarnir en má líka sjá Ameríkana og Japana á virkum dögum. Þar byrja yfirleitt fastakúnnarnir að syngja og það myndast skemmtileg stemning. En það er nú eiginlega ekki gert ráð fyrir kvenfólki þarna því við þurftum að fara á veitingastaðinn við hliðiná til að nota klósettið því að það var ekkert kvennaklósett á staðnum enda engan veginn pláss fyrir það.

Núna er aðeins vika eftir af skólanum og Regína og pabbi koma hingað á þriðjudagskvöldið svo að við höfum rúma viku áður en við komum heim til að "túristast" með þeim. Getum ekki farið heim án þess að kíkja á eitthvað af þessum sögufrægu stöðum.

Góða helgi!

Halla og Ragna



0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim