Halla og Ragna blogga frá Árósum

laugardagur, nóvember 25, 2006

Túristast í Caíró

Það hefur sko ekki farið fram hjá okkur að það sé verið að gera upp íbúðina fyrir ofan okkur. Við mættum einum vinnumanninum í stigaganginum um daginn og hann var á táslunum! Í smíðavinnu!
Svo vorum við að labba fyrir utan bygginguna í sakleysi okkar þegar nokkrir múrsteinar hrynja niður fyrir framan okkur og á eftir fylgdi fullt af drasli. Þá henda þeir þessu bara niður útum gluggan og eru ekkert að athuga hvort það sé eitthvað fólk fyrir neðan og hefur þvotturinn okkar líka orðið fyrir barðinu á þessum hreinsunum hjá þeim. Það er svoldið margt hérna í Egyptalandi sem við skiljum ekki alveg.

Í síðustu viku var seinasti skóladagurinn hjá okkur, ilhamdulillah, ilhamdulillah!
Þó svo að það sé búið að vera voða gaman í skólanum þá vorum við líka mjög fegnar að vera búnar. Þetta er búið að vera mjög strembið enda erum við búnar að læra þvílíkt mikið á þessum tveim mánuðum.
Pabbi og Regína komu í síðustu viku og svo förum við öll saman heim til Íslands aðfaranótt fimmtudags, jibbí!
Það er stíft prógramm hjá okkur núna. Við erum búin að fara að sigla á Níl og í gær skoðuðum við pýramídana, spinx og fórum í úlfaldareiðtúr sem var reyndar ótrúlega erfitt því við systur vorum allar að drepast úr harðsperrum í dag en pabbi fann auðvitað ekki fyrir neinu.
Í dag skoðuðum við "Old Cairo", Mohammed Ali moskuna og borgarvirkið. Á morgun ætlum við svo í dagsferð til Alexandriu og skoða okkur aðeins um þar. Hlökkum til að sjá muninn á Caíró og Alexandriu tveimur stærstu borgunum í Egyptalandi. Höfum heyrt frá fólki, sem hefur verið þar, að þetta séu svo ólíkar borgir.


Það er svoldið gaman að sjá hvernig pabbi og Regína eru að upplifa allt hérna í Caíró því við erum búnar að vera hérna í svoldinn tíma og þau eru svo spennt yfir öllu og finnst allt svo merkilegt og við erum orðnar svoldið þreyttar á þessari borg, menguninni, hávaðanum, peningaplokkinu og fleiru. Kannski virkum við svoldið kaldar núna miðað við hvernig við vorum fyrst en þannig verður maður stundum líka bara að vera.
En þetta er líka búið að vera þvílíkt þolinmæðispróf fyrir okkur tvær og held ég að við höfum bara staðist prófið ágætlega.

Við hlökkum rosa mikið til að komast heim. Við erum t.d. ekkert að upplifa neina jólastemningu hérna því það eru ekki haldin jól hérna þannig að það verður svoldið skrýtið að koma heim og allt er skreytt og jólalög í útvarpinu. Og svo er spurning hvort við eigum eftir að fá sjokk yfir kuldanum því það virðast allir vera að kvarta yfir kulda heima og við erum náttúrulega ekki búnar að upplifa neitt undir 20° hita hérna. En það verður bara þvílíkur munur að geta andað að sér fersku lofti og ekki koma inn og það sé mengunarlykt af fötunum okkar!

Reynum að blogga allavega einu sinni í viðbót áður en við förum heim,

Ragna og Halla


0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim