Halla og Ragna blogga frá Árósum

laugardagur, október 28, 2006

Kullu sana wa inti tayiba


Þá erum við komnar aftur til Cairó. Vorum hjá vinafjölskyldu okkar á Norðurströnd Egyptalands þar sem þau eiga jörð við Miðjarðarhafið. Þetta var algjör paradís. Þau eiga einkaströnd þannig að við gátum alveg notið sólarinnar og hafsins án þess að neinn væri að bögga okkur. Þetta var allavega frábær leið til að hlaða batteríin fyrir næsta mánuð.
Við kynntumst þeim í gegnum Souzane (bekkjarsystir Rögnu í Danmörku og hún er líka hérna að læra) og þau vildu endilega bjóða okkur þremur með. Við ætluðum nefninlega til Sharm el-sheik en þeim leist nú ekkert á það þar sem allir myndu flykkjast þangað núna því það er frí hjá öllum í þessari viku og erum við líka mjög fegnar að við fórum með þeim í staðinn.

Ströndin þeirra er sú hreinasta og flottasta sem við höfum séð. Þetta er svona týpist dæmi um strönd sem þú sérð í ferðabæklingunum en það er í raun aldrei þannig.
Öll vikan var bara endalaust "hygge", spilað, borðað góðan mat og að sjálfsögðu reynt að næla sér í einhverja smá brúnku því það er ekki hægt hérna í Cairó.

Á morgun byrjar svo skólinn aftur. Svo kom elsku mamma okkar og vinkona hennar hingað í gær og verðum við að reyna að hafa ofan af fyrir þeim í þessari viku.

Við erum búnar að setja inn nýjar myndir endilega kíkið á þær og ekki vera feimin við að kommenta.

Knús og kossar Ragna og Halla

p.s. Guðrún Elín til hamingju með nafnið, rúsína

föstudagur, október 20, 2006

It´s a jungle out there!


Smá munur á þessum stöðum. Það búa 19.999.500 fleiri í Cairo en á Djúpavogi. Við búum þarna í 3. byggingunni til hægri í vinstra horninu, þar sem þvotturinn hangir úti á svölum :) Við erum að veifa! Sjáiði okkur? Sá sem verður fyrstur að finna okkur hefur unnið sér inn ferð til Egyptalands, aðra leið og frí gisting í eyðimörkinni.....

Egyptar elska hávaða. Hvar sem þú ferð inn í búð, á kaffihús eða veitingahús er tónlistin í botni og í umferðinni eru allir að öskra á alla en samt eru þeir eiginlega bara að spjalla. Allt hérna tekur 1 mínútu segja þeir (sem er að sjálfsögðu alltaf miklu meira en 1 mínúta) t.d. um daginn þegar við vorum að taka leigubíl, reyndar þegar Iftar var að byrja (þegar þeir mega byrja að borða aftur á daginn), þá stoppaði hann bílinn náttúrulega í eina mínútu til þess að sækja sér mat og við biðum bara sallarólegar á meðan en auðvitað tók þetta mun lengri tíma.

En nú er Ramadan að verða búin eða nánar tiltekið á mánudaginn er síðasti dagurinn, Ilhamdulillah (Guði sé lof), enda er þetta orðið ágætt. Nóg komið af detoxi og tími til kominn að sjá hvernig daglegt líf er í raun og veru. En fyrst tekur Eid við sem er viku frí frá skólum og vinnu og þá fara flestir (sem hafa efni á því) út úr borginni og á Sharm el Sheikh eða aðrar ferðamannaparadísir sem liggja við Rauðahafið eða Miðjarðarhafið. Þá verður aldeilis slett úr klaufunum.

Við förum með Souzane vinkonu okkar og Egypskri vinafjölskyldu hennar til Iskandiriyya sem liggur við Miðjarðarhafið. Þau eiga víst villu þarna og einhvern hluta af ströndinni þannig að þetta hljómar alltaf mjög vel. Alls ekki slæmt fyrir Höllu og Rögnu.

Við erum búnar að vera töluvert aktívar í félagslífinu síðastliðnu þrjú kvöld sem að telst nú til tíðinda. Fyrsta kvöldið fórum við saman nokkur úr skólanum á kaffihús og það var mjög notalegt. Kynntumst fleirum m.a. einum Íra og stelpu frá Svíþjóð. Alltaf gaman að hitta aðra útlendinga því að yfirleitt eru flestir að upplifa það sama sérstaklega stelpurnar.
Á fimmtudaginn fórum við með Souzane og nokkrum vinum hennar út að borða Iftar á Níl. Eftir matinn keyrðum við í City Star (verslunarmiðstöð) sjö saman í bíl, tveir í skottinu, og ferðin tók um 40 mínútur og á leiðinni var hlustað á kassettu með Ace of Base. Frekar skondið.
Eins og við höfum áður sagt þá er umferðin hérna vangefin. Allir flautandi og öskrandi á alla. Þetta virkar þannig að þú ferð á einhverja ákveðna skrifstofu, borgar 20 gineh (300 íslenskar krónur) og færð ökuskírteini og reglurnar eru þannig að það eru engar reglur. Og það er best að halda því þannig. Enginn notar bílbelti og hefur maður séð þó nokkur Britney Spears atvik þar sem krakkinn situr í fanginu á foreldri sínu sem er að keyra. Kannski að Britney ætti að flytja hingað þá yrði hún ekki fyrir svona miklu böggi út af þessu.

Í gær fórum við með Souzane á Grand Hyatt hótelið við Níl og sátum þar með nokkrum vinum vina hennar og spiluðum Taboo, hlustuðum á Egypta syngja karokee og drukkum Sahlab (heitur mjólkurbúðingur með kókos, rúsínum eða því sem maður vill og er hrikalega gott) og reyktum Sisha (vatnspípa með ávaxtatóbaki). Fórum heim um tvöleytið en þá voru flestir að panta sér að borða og þar sem við erum ekki að fasta þá drifum við okkur heim svo við myndum ekki troða okkur út af mat því að maturinn hérna er svo góður og erfitt að standast freistingarnar.

Settum inn myndir frá liðinni viku og nokkrar myndir af íbúðinni þar sem var hoppukeppni í gangi og sést greinilega að Halla er sigurvegari en aldrei að vita nema að það verði "rematch" seinna.

Segjum þetta gott í bili, knús og kram

Fatíma og Aisha (nýju nöfnin okkar)

sunnudagur, október 15, 2006

Ferðin í Bahria eyðimörkina

We've been through the desert on a horse with no name
It felt good to be out of the rain
In the desert you can remember your name cause there aint no one for to give you no pain
La, la la, la la la...


Á fimmtudaginn ákváðum við að það væri tími til komin að taka frí frá látunum og menguninni í borginni og skella okkur á frekari vit ævintýranna í eyðimörkinni.

Við vorum 7 sem fórum, 4 ameríkanar, 1 íri og við tvær. Við vissum lítið hvernig planið væri því eins og svo margt annað hjá okkur þá var þetta skyndiákvörðun og ekki voru bílstjórarnir að deila ferðaáætluninni með okkur. Eftir langa bílferð út í óvissuna og stopp í mestu ógeðisbúllu sem að við höfum pissað í (trúið okkur það er mun verra en það sem þið eruð að ímynda ykkur) komumst við loks á leiðarenda á hótel í Bahria eyðimörkinni. Þar var okkur hent út og við tók Ahmed (já Sindri auðvitað heitir hann Ahmed hehe...) sem var leiðsögumaðurinn okkar í þessari ferð. Þar fengum við að borða og síðan var haldið út fyrir bæinn á jeppum og inn í eyðimörkina. Settar voru upp búðir og kveiktur varðeldur. Búðirnar samanstóðu af smá skjólvegg og teppum á sandinum. Svo var boðið uppá te og byrjuðu leiðsögumennirnir og bílstjórarnir að spilað á tublu (einskonar tromma), gítar og flautu og að sjálfsögðu var sungið hástöfum með og dansaður magadans. Og athugið að þetta voru bara karlmenn og við komust ekki með tærnar þar sem þeir hafa hælana í magadansinum. Frekar neyðarlegt. Fyrsta nóttin að sofa undir berum himni var frekar erfið. Við vorum uppá smá hæð og það var frekar kalt, eiginlega bara mjög kalt og þ.a.l. lítið sofið.

Daginn eftir skoðuðum við Svörtu eyðimörkina sem er reyndar ótrúlega lík íslensku hálendi fyrir utan hitann, fórum í sund og lögðum okkur undir pálmatrjám í einum af bæjunum sem hafa vaxið kringum uppsprettu í eyðimörkinni. Síðan keyrðum við í Hvítu eyðimörkina þar sem áætlað var að gista um nóttina. Okkur fannst Hvíta eyðimörkin miklu skemmtilegri og fallegri. Þar settum við upp búðir og við bættust 5 hressir spánverjar sem hafa verið vinir síðan þeir voru 5 ára og fóru í þessa ferð til að halda uppá að þeir verða allir 40 ára á árinu. Við fylgdumst með sólinni setjast og tunglinu koma upp sem var ótrúlega fallegt. Seinni nóttin var mun þægilegri en sú fyrri. Ekki eins kalt og kannski vorum við bara farnar að venjast þessum aðstæðum. Það sem kom okkur á óvart við eyðimörkina er að það er ótrúlega lítið af pöddum og dýrum. Eina sem við sáum voru bjöllur og eyðimerkurrefur.

Næsta dag var rúntað um hvítu eyðimörkina og svo keyrt tilbaka til Cairó. Það var svo gott að komast úr óreiðunni og látunum í borginni og upplifa ró og næði. Fyrsta kvöldið minnti okkur eiginlega á gömlu góðu dagana heima á Djúpavogi þegar maður lá í grasinu og fylgdist með stjörnunum og manni leið eins og maður væri einn í heiminum.

Núna erum við sem sagt komnar aftur í borgina og aðeins 1 vika eftir af námskeiði 1 og eftir það tekur við vikufrí og verðum við að fara að plana eitthvað spennandi að gera í fríinu. Kannski skellum okkur til Rauða hafsins og fá smá lit.

Biðjum að heilsa í bili, knús og kossar Ragna og Halla


P.s. settum inn myndir úr ferðinni og ýmsar myndir frá fyrstu dögunum.

sunnudagur, október 08, 2006

Welcome to Egypt

Fyrir þá sem eru að íhuga að fara í meðferð... gleymið því. Komiði bara hingað. Við gerðum okkur ekki alveg grein fyrir þessu áður en við komum en núna skiljum við af hverju mamma hvatti okkur svona mikið til þess að fara. Kannski þess vegna sem að við erum búnar að vera svona þreyttar og líða hálf skringilega... við erum bara með fráhvarfseinkenni. Reyndar er almennt drukkið hérna en í Ramadan mánuði er það alveg bannað. En það má ekki vera með áfengi út á götu eða vera fullur út á götu. Og það er strangt tekið á því ekki svona eins og heima. Múslimar mega strangt til tekið ekki drekka áfengi en sumir fara ekki eftir því, eins og gengur og gerist, þannig að þetta gæti breyst eftir Ramadan. Í stað áfengisdrykkja eru nýkreistir ávaxtasafar sem eru reyndar mjög ljúffengir.

Við erum tvisvar búnar að fara út á lífið hérna á staði sem eru báðir við Níl og til þess að komast inn þurftum við að vera á gestalista. Báðir mjög flottir staðir og mjög ólíkt því sem við sjáum á götunum. Þarna kemur fólk og borðar fram eftir öllu, af því að það er Ramadan, reykir Sisha (ávaxtatóbakspípa), spilar jafnvel og hefur gaman. Mjög skrítið að fylgjast með öllum þessum fjölda fólks vera að skemmta sér ÁN áfengis.

Ramadan er mjög heilagur mánuður og það er margt sem að fólk gerir ekki. T.d. má ekki dansa, drekka, segja eitthvað ljótt, hugsa eitthvað ljótt og fólk reynir að vera ekki með neitt bögg við hvort annað.

Okkur finnst frekar erfitt að venjast áreitinu hérna því að við skerum okkur svolítið úr með ljóst hörund og ljóst hár og þar sem við búum er ekki mikið af ferðafólki svo að það er sífellt verið að flauta og kalla á okkur. Flestir eru meinlausir en auðvitað er fólk hérna sem er ekki meinlaust eins og alls staðar. Þeir eru reyndar mjög forvitnir og spyrja oft persónulegra spurninga eins og ertu gift eða ertu múslimi og það er mjög eðlilegt. Best er að segjast vera giftur eða í sambandi. Þeir spurja líka alltaf hvaðan við erum og hvað við heitum því að hérna þýða nöfnin þeirra alltaf eitthvað. Við segjum alltaf þeir því að það er svo miklu meira af karlmönnum alls staðar og því tókum við strax eftir. Það eru yfirleitt bara karlar að vinna á kassa í búðum, í kvenfatabúðum, á veitingastöðum og kaffihúsum. Alls staðar sem maður fer heyrir maður welcome...welcome to Egypt... Þetta virðist vera það eina sem þeir kunna í ensku en annars tala þeir mjög litla ensku.

Það er mjög fyndið að horfa á sjónvarpið hérna þ.e.a.s. auglýsingarnar. T.d. er sms leikur í gangi þar sem þú getur unnið 1/4 kíló af gulli. Vitum ekki alveg hvernig það væri að dröslast með það heim. Getur maður t.d. borgað með gulli einhvers staðar? Svo vorum við að skipta um stöð og fórum inná stöð sem heitir Kuwait sport og þar var Kameldýrahlaup í fullum gangi. Lýsingarnar voru eins og frá hestamannamóti heima þ.e. "þetta kameldýr xxx er í eigu Ahmed Sayed sem býr í Oman". Við vorum mjög spenntar yfir þessu. Svo eru arabísku fóstbræður sem er jafn fyndið og það hljómar.

Eftir að Ramadan er búin, sem má nú alveg fara að gerast, þá er plönuð þriggja daga ferð í eyðimörkina þar sem verður sofið undir berum himni og þetta er víst besti tíminn til að fara því að þá er haustið að byrja og eyðimörkin er fallegust á þessum tíma. Ástæðan fyrir því að sofa undir berum himni er til þess að sjá stjörnurnar sem er ekki alltaf hægt því að tunglið er svo bjart. Við erum mjög spenntar yfir þessari ferð og svo ætla mamma, pabbi og Regína að koma í heimsókn svo að við höfum eitthvað til þess að hlakka til.

Biðjum að heilsa í bili

P.s. óskum Auði og Ævari innilega til hamingju með litlu krúttmundu sem fæddist 5. október sl. Við erum búnar að sjá mynd af henni og hún er æði :) Vonandi hefur litla fjölskyldan það rosa gott.

miðvikudagur, október 04, 2006

Inta magnun walla eh?

Ramadan er í fullum gangi eins og kom fram í síðasta bloggi. Það er ýmislegt sem maður þarf að taka tillit til í þessum mánuði. T.d. er ekki viðeigandi að drekka eða borða fyrir framan þá sem eru að fasta á daginn sem getur stundum verið mjög erfitt því lang flestir hérna eru að fasta og þegar hitinn er yfir 30 gráður þá er mjög freistandi að grípa í vatnsflöskuna. Á daginn eru allir veitingastaðir og öll kaffihús tóm en samt sem áður 5-10 manns að vinna en það þýðir alls ekki að maður geti búist við betri og hraðari þjónustu.

Eftir klukkan 6 á daginn lifnar yfir öllu eða þegar heyrist í hátölurum, sem staðsettir eru víða um borgina og í sjónvarpinu, "Allahu Akbar" sem þýðir Guð er mikill/mestur og þá má fólk byrja að borða. Í Ramadan mánuði er mest líf á kvöldin og langt fram á nótt því fólk er að borða fram eftir öllu. Flestir sofa lítið eða bara á daginn. Þetta er svipað og þegar klukkan slær 6 á aðfangadag og við segjum að jólin séu komin. Stemningin er líka svipuð og á jólunum, seríur út um allt og veitingastaðir skreyttir. Góðmennskan ræður ríkjum. Ríka fólkið setur upp borð- og stólaraðir víða um borgina og gefa fátækum og þeim sem ekki komast heim fyrir "breakfast" mat og drykki. Þetta kalla þau "matarborð Guðs" og fólkið sem gefur matinn getur hugsað sem svo að þau fasti 1 aukadag fyrir hvern sem þau fæða og með því ávinna þau sér æðri stað á himnum þegar þar að kemur. Það eru líka margir sem standa úti á götum og gefa vegfarendum drykki, döðlur og brauð fyrir t.d. leigubílstjórana sem komast ekki heim í mat. Allir eru mjög vinalegir og ánægðir. Sumir panta líka marga matarskammta frá veitingastöðum og keyra út úr bænum og gefa fólki sem er að ferðast og hefur ekki tíma til að stoppa og njóta "breakfast".

Það er líka hefð að fórna dýrum í Ramadan mánuði og urðum við vitni að því þegar nauti var fórnað hinum megin við götuna þar sem við búum. Eina stundina var það sprelllifandi og nokkrum mínútum seinna var dýrið steindautt. Það voru margir sem söfnuðust saman til að fylgjast með þessari athöfn.

Eins og er eigum við okkur ekki mikið félagslíf. Skólinn er frá níu til hálf fjögur á daginn og yfirleitt eftir skólann erum við búnar á því út af hitanum, menguninni og strembnu prógrammi í skólanum. En planið er að gerast meðlimir í stærsta tómstundaklúbbi sem við höfum augum litið. Þetta er í raun eins og lítið þorp inni í miðri Cairo eða eins og vin í eyðimörkinni. Þarna er tækjasalir, tennisvellir, fótboltavellir, hlaupabrautir, sundlaug, veitingastaðir, kaffihús, bókasafn og margt fleira. Þarna getur maður hangið tímunum saman og fengið frið frá látunum og stressinu í borginni. Meðlimir þessa klúbbs eru ríkir egyptar, ameríkanar og evrópubúar.

Í kvöld er stefnan tekin á City Star, stærstu og flottustu verslunarmiðstöðina hér í Cairo.

Biðjum að heilsa í bili, ma´a salama!

sunnudagur, október 01, 2006

Kaos í Cairo



Kúltúrsjokk!!! Við fengum vægt kúltúrsjokk þegar við komum, eins og við mátti búast.
Það fyrsta var þegar við lentum (eftir 15 tíma ferðalag og ekki búnar að sofa í­ meira en sólarhring) og stóðum allt í­ einu einar eftir á flugvellinum, fyrir utan starfsfólk, í­ ókunnu landi þar sem við töluðum ekki tungumálið og uppgötvuðum að við vissum ekkert hvert við áttum að fara, hvar við áttum að gista eða hvað við hétum! En þá fengum við fyrst að kynnast því­ hvað Egyptar eru rosalega hjálpsamir, vinalegir og gestrisnir. En í fyrstu vorum við ekki alveg vissar hvernig við áttum að taka þessu­ en nú vitum við að þeir eru almennt þannig og yfirleitt vilja þeir vel. En samt snýst allt um peninga en það eru ekki háar upphæðir að okkar mati. T.d. tökum við leigubí­l í­ skólann á morgnana og borgum ca. 60 í­slenskar krónur fyrir og Big Mac máltíð á McDonalds kostar um 185 í­slenskar krónur. Síðan gefur maður alltaf smá "tips".
Okkur var sem sagt reddað hótelgistingu í­ eina nótt og morgunmat innifalið mjög nálægt skólanum og far frá flugvellinum með leigubíl (sem tekur allt upp í­ klukkutíma) og allt þetta fyrir ca. 3800 í­slenskar krónur.

Umferðin hér er ekkert eðlileg og það var það fyrsta sem við tókum eftir. Við lentum sem sagt á flugvellinum í­ Cairo á mánudagseftirmiðdegi og Ramadan (fastan) mánuður var þá nýhafinn. Það þýðir að fólk má ekki setja neitt upp í­ sig (t.d. vatn, mat, tyggjó, sígarettur osfrv.) frá sólarupprás til sólseturs þannig að frá klukkan ca. hálf fjögur til sex er umferðin óvenju þung, þar sem fólk er að drífa sig heim fyrir breakfast (hlé á föstunni), þannig að við sátum þarna í­ leigubíl á leið inn í­ Cairo borg og í­ umferðinni gildir ein regla: hver verður fyrstur? Það eru engin umferðarljós og fólk fylgir ekki lí­nunum á veginum og smeygir sér á milli bí­la eins og í­ amerí­skum hasarmyndum og allir bí­lar eru rispaðir á hliðum, stuðurum og oft með brotinn eða engann hliðarspegil. Og inná milli í­ þessari kaos kemur asni röltandi með vagn aftaní­ stjórnandi af einhverjum sem er að selja brauð, ávexti eða bara til þess að koma fólki á milli staða. Fólk notar bí­lflautuna villt og galið og kemur það í­ stað fyrir ljós og önnur umferðamerki. Þannig að bílflautuhljóðið glamrar í­ hausnum á manni fyrstu dagana meðan maður er að venjast því­.

Strætómenningin er lí­ka einstök og efumst við um að koma til með að nýta okkur hana. Þetta eru yfirleitt gamlar rútur og sendiferðabí­lar og við vitum ekki til þess að það séu sérstakar stoppistöðvar. Þetta er eiginlega bara hop-on og hop-off og oft hangir fólk utan á. Ef maður þarf svo að komast yfir götuna þá er bara að demba sér af stað og vona það besta. En yfirleitt keyra þeir ekki á mann.

Ef við eigum einhvern tí­mann eftir að þora að keyra hérna þá getum við ALLT!

Skólinn er rosalega fí­nn, ekki stór þannig að það hentar mjög vel. Við fengum risastóra lúxusíbúð (ca. jafn stór og Kambstún eða stærri jafnvel) og við borgum um 30000 íslenskar krónur fyrir hana og hún er með tveimur baðherbergjum, þremur svefnherbergjum, tveimur stofum, stóru eldhúsi, uppþvottavél og þvottavél. Þannig að við getum alls ekki kvartað yfir neinu þar nema einstaka kakkalökkum en það er mjög eðlilegt hérna.

Við höfum fullt meira að segja en látum þetta duga í­ bili. Skammtur eitt af mörgum.

Ramadan Kareem (Gleðilega föstu)

Halla og Ragna

p.s. myndirnar eru af týpískum leigubí­l hérna og strætó