Halla og Ragna blogga frá Árósum

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Nýjar myndir

Vorum að setja inn myndir frá desember og janúar. Vonandi virka þessir linkar en annars getið þið alltaf smellt á myndasíðan okkar hérna vinstra megin.

Annars er allt gott að frétta. Við héldum smá erindi í Bæjarbókasafninu í Þorlákshöfn sl. fimmtudag um námið okkar, Islam og ferðina til Egyptalands. Þetta gekk rosa vel og það mættu mjög margir. Við bjuggumst ekki við því að það myndu svona margir mæta svo að við vorum mjög ánægðar með það hvað margir sýna þessu áhuga. Ragna skilaði svo arabískuritgerðinni sinni daginn eftir, Höllu til mikillar gleði en hún hafði ekki verið viðræðuhæf þangað til. Hehehe :-)

Senn líður að því að við snúum aftur til Árósa og við erum farnar að hlakka mikið til. Maður fær alltaf pínu leið á svona rútínuleysi eftir ákveðið langan tíma. Býst samt við því að við verðum komnar með ferðafiðring fljótlega. Erum líklega búnar að redda okkur vinnu í skóbúð í Árósum. Vorum að vinna á Tveimur Fiskum á föstudagskvöldið og það vildi svo skemmtilega til að þar var fólk sem eiga skóbúðir í Skandinavíu og m.a. Árósum og þeir sögðu að þeim vantaði alltaf gott starfsfólk svo að við skiptumst á e-mailum og vonandi gengur þetta.

Biðjum að heilsa í bili og sjáumst á þorrablótinu á Djúpavogi um helgina... jibbí!!!

föstudagur, janúar 12, 2007

Árið 2006

Settum saman smá annál um árið 2006. Sáum að margir hafa gert þetta og það er svo gaman að lesa það.

Janúar: Halla var í Þorlákshöfn og sat sveitt við ritgerðarskrif. Ragna fór aftur til Árósa 5. janúar og tók próf. Halla fór aftur til Árósa í lok janúar og það urðu fagnaðarfundir á Rosenkrantsgade. Halla, Ragna og Sindri héldu svaðalegt rokkpartý í tilefni þess að við vorum að flytja út úr íbúðinni. Undirbúningstímabilið í fótboltanum hófst með útihlaupum og æfingum tvisvar í viku og það var sama hvernig viðraði.

Febrúar: Fluttum frá Rosenkrantsgade. Frekar blendnar tilfinningar en komumst að þeirri niðurstöðu að við ætlum aldrei að flytja í íbúð á fimmtu hæð, ekki með lyftu, og agalega þröngum stigagangi. Ragna og Halla fluttu saman í eitt herbergi í Skejby og deildu íbúð með annari stelpu. Undirbúningstímabilið komið á gott skrið.

Mars: Fengum íbúðina okkar á Herredsvej afhenta. Vorum mjög sáttar. Halla tók þá ákvörðun að halda ekki áfram í Handelshöjskolen í frönsku og evrópskum fræðum og útbjó í snatri umsókn í arabísku og íslamska menningu við Århus Universitet. Spiluðum nokkra æfingaleiki sem var mjög skemmtilegt. Vorum komnar í ágætis form eftir öll útihlaupin.

Apríl: Fórum heim í páskafríinu en það kom ekki til af góðu. Halla varð eftir á Íslandi og fór að hjálpa pabba sínum í kosningarbaráttunni. Ragna fór aftur til Árósa og hélt áfram í náminu og fótboltanum og tímabilið hófst.

frh. árið 2006

Maí: Halla fór á Djúpavog til Drífu, Drafnar og Írisar og byrjaði að vinna í Við Voginn. Dröfn sótti Höllu í flug og síðan var rosalegt djamm á Egilsstöðum. Byrjaði að skipuleggja hin ýmsu djömm fyrir sumarið en lagði mest áherslu á Verslunarmannahelgina. Stefnan tekin á Þjóðhátíð.

Júní: Ragna lauk prófunum og náði öllu. Hún kom austur í lok júní og var þá búin að skipuleggja skiptinám til Beirút í Líbanon um haustið. Allt klappað og klárt.

Júlí: Fórum á Todmobile á Seyðisfirði sem var geggjað gaman. Helgina eftir var stefnan tekin á Borgarfjörð Eystri í Bræðsluna að hlusta á Belle and Sebastian og Emilíönu Torrini. Magnaðir tónleikar. Ísraelir byrjuðu að sprengja í Líbanon. Útlitið ekki gott fyrir skiptinámið hjá Rögnu.

Ágúst: Þjóðhátíð í Eyjum. Eitt af því skemmtilegasta sem við höfum upplifað. Fyrsta skipti Höllu en annað skipti Rögnu. Vorum í gleðivímu alla helgina og vikuna á eftir. Kvöddum Djúpavog með tárin í augunum en gleðin tók fljótt völd því við fórum beint til London með pabba á tónleika með Rolling Stones. Daginn eftir flugum við til Billund og vorum komnar heim til Árósa á mettíma. Mjög góð tilfinning að koma aftur. Byrjuðum strax í boltanum og kepptum nokkra leiki. Mikið djamm sumarsins og lítil hreyfing sagði til sín. Festugen hófst. Ragna hætti við að fara til Beirút eða ferðinni aflýst vegna óstöðugs ástands.

frh. árið 2006

September: Addi frændi kom í heimsókn og Regína systir var hjá okkur út mánuðinn. Halla komst að því að námið hennar átti ekki að hefjast fyrr en 1. febrúar. Við tókum því ákvörðun að fara til Egyptalands í tvo mánuði og taka arabísku námskeið þar. Höfðum tvær vikur til að undirbúa allt. Tókum þó nokkur djömm þar sem við gerðum ráð fyrir þurrkatímabili næstu tvo mánuðina sem reyndist rétt. Vorum komnar til Kaíró 25. september. Stóðum þar tvær á flugvellinum og vorum ekki vissar hvað við værum búnar að koma okkur út í.

Október: Komum þegar Ramadan mánuður eða fastan var nýhafinn. Gaman að upplifa þann tíma en mjög skrítið líka. Kynntumst fullt af skemmtilegu fólki í skólanum. Fengum boð um að fara í sumarhús til egypskrar fjölskyldu sem við kynntumst. Það var sannkölluð paradís. Allt annað en Kaíró. Fórum líka í Bahria eyðimörkina og gistum undir berum himni í tvær nætur. Mögnuð lífsreynsla.

frh. árið 2006

Nóvember: Mamma og Gunna komu í heimsókn. Héldum áfram í skólanum. Pabbi og Regína komu í lok mánaðarins og við vorum samferða heim. Stoppuðum eina nótt í Köben.

Desember: Komum heim á klakann. Mjög góð tilfinning en gátum samt ekki annað en hugsað hvað við hefðum lært miklu meira ef við hefðum verið einn til tvo mánuði í viðbót. Fengum vinnu á Tveim Fiskum. Fórum í viðtal hjá DV, Mogganum og Glugganum (sunnlenskt fréttablað) út af ferðinni og náminu. Fórum austur á annan í jólum. Tókum eitt djamm á Egs og fórum svo á Djúpavog og héldum ein skemmtilegustu áramót fyrr og síðar með geggjuðum dansleik.

Þökkum vinum og fjölskyldu fyrir frábært ár og vonandi verður þetta ár jafn viðburðarríkt og skemmtilegt.

p.s. þurftum að setja þetta í svona margar færslur því að netið var ekki að "höndla" þetta.

laugardagur, janúar 06, 2007

Gleðilegt nýtt ár.....

...og takk kærlega fyrir allt það liðna :)

Alveg komin tími til að skrifa eitthvað smá inná þetta blogg en það verður bara stutt og laggott í þetta skiptið. Nú er ca. mánuður liðinn síðan við stöllur komum heim til Íslands. Við erum búnar að gera ýmislegt af okkur, djamma smá, vinna smá (alltof lítið samt), hanga í Kringlunni og svona. Jólin voru bara hin ágætustu. Vorum hjá mömmu á aðfangadag og hjá pabba á jóladag og fengum frábærar afmælis- og jólagjafir, held barasta allt sem við báðum um, höfum það alltof gott :) Svo tókum við skyndiákvörðun 2. í jólum og hoppuðum til Egilsstaða þar sem Soffía Tinna sótti okkur á flugvöllinn og við skelltum okkur í spilapartý hjá Valdísi og Loga. Eftir það fórum við í suddalegt partý á Sólvöllunum og svo á Hetjuna. Skemmtum okkur alveg svakalega vel á Egilsstöðum, djamm á egs klikkar ekki. Síðan fórum við niðrá Congó til Drífu og co. Þar var mikið spilað Trivial og leironarí. Gamlársdagur var æðislegur. Þvílíkt gott veður, allir úti að spóka sig, góður matur, flott brenna, frábærir flugeldar og skemmtilegast áramótaball sem við höfum farið á! Brunuðum svo í bæinn með Ævari Orra í gær. Ferðin var þvílíkt fljót að líða, við hlógum svo mikið á leiðinni. Það er ekki leiðinlegt að eiga svona skemmtilegan frænda. Planið þennan mánuðinn er að reyna að vinna svoldið meira, Ragna þarf að vísu að skrifa 2 ritgerðir fyrir 22. janúar þannig að það verður svoldið að fara að spýta í lófana. Svo kíkjum við örugglega eitthvað út á lífið og að sjálfsögðu komum við austur á hinn fagra Djúpavog á Þorrablót 27. jan.

Bless í bili, Ragna og Halla

p.s. Allir að kíkja í Gamlársblað DV, viðtal við tvær svakaskvísur. Maður má nú alveg njóta sinnar 15 mínútna frægð (eru það 30 mínútur af því að við erum tvíburar?) ;)