Halla og Ragna blogga frá Árósum

miðvikudagur, mars 21, 2007

Kokteilkvöld og nærbuxnamál

Ég er alveg búin að fá mig fullsadda á honum Ryan í O.C. Það er alveg merkilegt hvað hann getur átt bágt. Hann var nánast heimilislaus og bjó í "gettóinu" Chino og nú býr hann í mega villu og keyrir um á Range Rover en samt er hann ennþá bitur. Þvílíkt vanþakklæti. Ég er hætt að fylgjast með þessu. Maður verður bara pirraður að horfa upp á svona :)

Annars er það í fréttum að ég og Ragna komum heim á klakann um páskana nánar tiltekið eftir 8 daga. Það stóð nú ekki til en breyttist skyndilega og við erum bara mjög sáttar við það.

Undanfarið hef ég verið að þýða grein fyrir fornleifatímarit heima og aldrei hefði mig grunað hvað ég hef lært mikið af þessu. T.d. er ég búin að læra hvaðan orðið berserkur er upprunið og hvað mjöður VIRKILEGA er. Síðan var mjög skemmtilegur (og tvíræður) kafli um birni eða lýsing á þeim. Ég gat náttúrulega ekki setið á mér og sendi Birni mági mínum kaflann en hann hljóðaði einhvern veginn svona:
Björninn er ilfeti og skilur þar með eftir sig fótafar frá hæli til táa og hann sveiflar örmunum eins og mennirnir þegar hann gengur. Höfuð hans er hringlaga eins og hjá mönnunum, hann getur hallað bakinu að tréi þegar hann situr, hann elskar hunang, hann gefur ungum sínum á brjóst og grátur þeirra hljómar eins og barnsgrátur. Hann hefur vald á miklum orðaforða og hefur vel þróaða tilfinninganæma hegðun. Björninn virðist með öðrum orðum hálf mennskur.

Fyrir þá sem hafa fylgst með nærbuxnamálunum þá fórum við systur í bæjarferð í dag þar sem við keyptum mini ofn, blandara og Ragna keypti sér nærbuxur. Þannig að nú getum við hætt að steikja allan mat, enda komnar með ógeð af því, miðvikudagskvöld eru orðin kokteilkvöld hérna á Herredsvej og Ragna þarf ekki að óttast að lenda aftur í svipuðu atviki og í síðustu viku (ég þarf náttúrulega ekkert að spá í þessu enda nærbuxnasafn mitt óaðfinnanlegt).

En þangað til næst, knús og kossar

Halla

miðvikudagur, mars 14, 2007

Súr gúrka?

Var að lesa stjörnuspána mína inn á mbl.is og vá hvað hún er góð:

Steingeit: Þú er jafn svalur og agúrka, svo það er erfitt fyrir fólk að vita að í raun líður þér einsog súrri gúrku. Svamlaðu um í edikinu um tíma, og þurrkaðu þér svo. Þú þarft ekki að binda um nein sár sem tímann læknar ekki.

Svoldið til í þessu. Ég og Halla áttum tíma pantaðan í dag í bólusetningu nr. 2. Við fórum fyrst í september áður en við fórum til Caíró og svo áttum við að mæta aftur núna og fá aðra sprautu sem dugar í 20 ár. Síðast þegar við fórum þá sprautaði hjúkkan okkur í lærið þannig að ég vaknaði upp við vondan draum í skólanum í dag því ég var í svo hræðilega ljótum nærbuxum. Mátti nú alls ekki láta sjá mig í þeim hjá hjúkkunni þannig að ég hjólaði á fullu heim til að skipta yfir í aðeins meira "fancy" buxur. Svo fór ég niðrí bæ og hitti Höllu fyrir utan og við fórum saman inn og hjúkkan biður okkur vinsamlegast að fara úr peysunni...djöhhh... ég sem var búin að hafa svo mikið fyrir því að skipta og svona. Við fórum nú bara að hlæja af þessu því það hefði verið svo týpískt að ég hefði bara rifið mig úr þarna á staðnum og staðið á nærbuxunum áður en hjúkkan hefði náð að segja eitthvað en sem betur fer gerðist það ekki.

Seinasta föstudag kíktum við til Soffíu þar sem Bóel og Vallý voru í heimsókn. Það var nú bara frekar rólegt miðað við. Fengum okkur nokkra öl og spiluðum Leironarí, óþarfi að tala um úrslitin enda hver man hvernig þetta fór :/
Daginn eftir var leikur hjá okkur í JAI. Ég og Halla vorum báðar að keppa og vorum heldur betur á skotskónum. Við unnum leikinn 5-1 og ég skoraði 2 mörk og Halla skoraði sitt fyrsta mark fyrir JAI og það með vinstri og það var meira að segja helv...flott mark!!
Um kvöldið var svo smá afmælispartý fyrir Maren. Við hittumst við síkið þar sem opnuð var freyðivín og henni var afhent kóróna. Við fórum svo út að borða og á hljómsveitakeppnina á eftir. Það var þvílíkt stuð, bara rokkhljómsveitir að keppa. Sind, hljómsveitin sem Hlynur og Danny eru í, komst áfram þannig að næst er það Semifinal í Voxhall 26. apríl. Getið skoðað þetta inná www.emergenza.net.
Sunnudagurinn fór bara í að liggja fyrir þar sem við vorum svo þreyttar eftir leikinn. Þurftum nefninlega báðar að spila í 90 mín því við vorum bara 11 og erum ekki alveg komnar í formið fyrir það en þetta var fín æfing.

Annars er ég bara að fara að byrja á Bachelorverkefninu mínu. Er samt ekki alveg búin að velja mér efni er í smá vandræðum með þetta en ég finn mér eitthvað spennandi. Ef þið hafið einhverjar hugmyndir sem tengist arabísku eða islamskri menningu þá megiði endilega kommenta.

Helgin verður bara róleg, æfing frá 9-11 á föstudagskvöldið og svo leikur á sunnudaginn.

Góða helgi,

Ragna


föstudagur, mars 09, 2007

Flöskudagur kominn...

Vá, strax komin helgi. Þetta líður skuggalega hratt þessa dagana.

Ég fór með bekknum mínum í "hyttetur" þar sem við gistum eina nótt rétt fyrir utan Silkeborg í mjög sætum Skátaskála. Það var sumarbúðarfílingur í þessu. Þetta byrjaði allt mjög rólega, annað en ég hef vanist hérna, þ.e.a.s. það var ekki byrjað á Gammel dansk snafsi klukkan tíu. Svo um fimmleytið kom að þeim hluta sem ég var ALLS EKKI spennt fyrir.... underholdning. Okkur var skipt í nokkra hópa og allir áttu að leika sama leikritið með mismunandi útgáfum. Þetta þýddi náttúrulega bara það að ég opnaði fyrsta bjórinn. Okkar hópur þurfti að mime-a sem hentaði mér reyndar ágætlega :) En það er ótrúlegt með þessa Dani það er eins og þau fæðist með einhverja hæfileika til þess að geta leikið eins og þau fái borgað fyrir þetta. Meira að segja fólk sem segir ekki neitt allan daginn svo allt í einu á að fara að leika og það er bara ekkert mál. Þetta var reyndar mjög fyndið t.d. var eitt leikritið með ballet og óperuþema og það virtist ekki vera neitt vandamál fyrir leikarana að koma því til skila.

Svo var náttúrulega dansað, reyktar vatnspípur og dansað meira. Bekkurinn er mjög passleg samblanda af dönum og svo múslimum þannig að við fáum mikið að kynnast þeirra menningu sem að er frábært. Strákarnir eru rosalegir í dönsunum ég skil ekki hvernig er hægt að hreyfa sig svona. En það er alltaf stuð hjá þeim það er ekki hægt að segja annað.


Við fengum að vita í gær að það er búið að plana vikuferð til Sýrlands í haust og ég er mjög spennt fyrir henni því að mig langar í skiptinám til Sýrlandi á þriðju önn þannig að það væri snilld að kíkja á þetta fyrst.

Síðasta helgi fór svo í Íslendingadjamm en Sindri, Dilja, Hjalti, Eyrún, Árný, Unnur Jóna og Margrét voru hér í heimsókn svo að það vantaði ekki stuðið. Svo var farið á Train á laugardagskvöldið með Mareni, Silju, Margréti, Þór og þremur dönskum súkkulaðigaurum :)

Þessi helgi verður með rólegra móti enda var þetta orðið ágætt síðustu helgi. Allavega var ég komin með ógeð á laugardagsnóttinni. En við erum að keppa einn æfingaleik á morgun og svo förum við á tónleika um kvöldið eða svona hljómsveitakeppni en Danny og Hlynur eru í einni hljómsveitinni svo að við förum að styðja. Mjög spennó og verður örugglega gaman.

Ég var að setja inn fullt af nýjum myndum. Þannig að endilega kíkið á þær hér
.

Góða helgi, Halla

fimmtudagur, mars 01, 2007

Vorið að koma?

Það er sko ekkert bara hægt að tala um veðrið á Íslandi neinei, það er sko alveg hægt að tala um það hérna líka. Í seinustu viku snjóaði svo mikið að allt hérna í Århus lamaðist algjörlega. Skólanum var aflýst á fimmtudag og föstudag og strætóarnir keyrðu ekki nema í miðbænum. En það stöðvaði samt alls ekki fólk í að fara í bæinn um helgina ef eitthvað var þá voru fleiri í bænum en venjulega. Held að allir hafi verið komnir með svo mikið ógeð af því að hanga heima að þau urðu bara að fara í bæinn. Við létum það allavega ekki stoppa okkur, skelltum okkur bara í snjóbuxur, úlpu og gönguskó og skelltum fínu skónum í töskuna :) En núna er eiginlega allur snjórinn farinn, ilhamdulillah, og ég er ekki frá því að vorið sé bara að koma.
Í gær buðum við systur Soffíu Tinnu og Steinunni í mat til okkar. Það var sem sagt arabískur forréttur og asískur aðalréttur, voða "kúltural" hjá okkur. Það heppnaðist bara allt mjög vel nema Wara 'inab rúllurnar úff...alls ekki góðar. Þrátt fyrir það áttum viðmvoða huggulega stund saman, alveg nauðsynlegt að gera svona af og til.

Halla skellti sér í "hyttetur" með bekknum sínum í dag og koma þau tilbaka á morgun. Allir nýnemar fara í svona ferð til að þjappa hópnum saman. Það verður örugglega mjög gaman hjá henni og ég er ein heima á meðan, finnst það alltaf pínu "notó" :)

Annars er helgin að sjálfsögðu fullbókuð eins og venjulega, partý, ball og nokkrir austfirðingar ætla að láta sjá sig hérna í Århus :)
Læt fylgja nokkar myndir með síðan um helgina.
Góða helgi allir,
knus Ragna


Sem sagt ekki að fara á hjóli.

Tilbúin á djammið

Halla og Soffía með smá dansatriði

Jenný og Soffía alveg með þetta á hreinu

Og það sem er nauðsynlegt í hverju Íslendingapartýi: Tópas ekkert helv... GaJol!