Halla og Ragna blogga frá Árósum

föstudagur, október 26, 2007

Hygge og meiri hygge

Ég elska “hygge”. Ég fæ aldrei leið á því að “hygge sig”. Þá meina ég t.d. fara á kaffihús, spjalla við vinkonurnar og jafnvel fá sér eins og eitt rauðvínsglas og þess háttar hlutir. Eitt sem ég myndi líka telja sem “hygge” er að fara í ljós. Það er fátt notalegra en að leggjast í hlýjan bekkinn svona þegar er farið að kólna. Ég sakna reyndar 20 mínútna bekkjanna. Núna eru þetta bara einhverjir 7-8 mínútna turbo bekkir sem maður nær ekki einu sinni að sofna í því tíminn líður svo hratt og ef maður gerist svo gráðugur að bæta við 2 mínútum þá skaðbrennur maður og situr uppi með “plumber” brókafar. Hrikalega flott.

Annað sem ég uppgötvaði fyrir nokkrum árum er að fara í nudd. En fyrir fátækan námsmann er það kannski ekki lúxus sem maður getur leyft sér, þó maður leyfi sér nú ýmislegt. En þar sem ég, eins og svo margir, er oft með vöðvabólgu þá þarf maður stundum að láta nudda þetta úr sér. Í mínu tilfelli þá veldur þetta stöðugum höfuðverk svo að ég fór nokkurra vikna meðhöndlun til sjúkraþjálfara fyrir nokkrum árum til að laga þetta. Svo lenti ég í því fyrir ca. tveimur vikum að nánast læsa á mér hnakkanum eða hálsinum svo að ég ákvað að nú þyrfti ég aftur á þessum yndislegu nuddtímum að halda. Ég var búin að sjá fyrir mér heitan bakstur um hálsinn á mér, ég vafinn inn í teppi og svo létt og notalegt nudd í ca. hálftíma, bara svona eins og þetta var. Síðan mæti ég þarna og gaurinn spyr mig spjörunum úr, t.d. hvað ég haldi að valdi þessu o.s.frv. Þegar hann frétti að ég væri að læra Arabísku þá var hann viss um að það væri að valda höfuðverknum en við ákváðum nú að það væri kannski ekki aðalorsökin, á samt örugglega einhvern þátt í þessu. Svo fer hann að tala um hvað við getum gert og hann nefnir nudd og svo eitthvað annað sem ég skyldi ekki alveg en það ætti að virka hraðar og það var eitthvað með að setja eitthvað inn í svæðin sem eru aum og svo spurði hann hvort ég myndi “þora því” eða hvað mér finndist um það því sumum finndist það ekki þægilegt. Ég vissi náttúrulega ekki alveg hvað hann var að tala um en var búin að ímynda mér alls kyns tæki og tól en í staðin fyrir að segja að ég skyldi hann ekki alveg þá sagði ég bara voða “töff” að ég væri alveg til í að prófa. Síðan fer hann eitthvað fram að ná í þetta og á meðan sit ég á bekknum og svitna því ég vissi ekki almennilega hvað ég væri komin út í. Svo kemur hann til baka með eitthvað gult box og þá voru þetta bara nálar sem hann stakk í mig og það tók svona 5 sekúndur og svo átti ég að leggjast í 10 mínútur á eftir því að mér gæti svimað. Og ég fékk ekki einu sinni teppi til að liggja með í þessar 10 mínútur. Var ekkert smá “skúffuð”. Var búin að búa mig undir 30 mínútna þægindi, gegn lágu gjaldi, en í staðinn fæ ég bara nálastungur. Það verður spennandi að sjá hvort þetta virkar. Sakna samt nuddsins:(

Jæja, verð að drífa mig því við stöllur erum að fara út að borða á Bones.
Vonandi eigið þið góða helgi og “hyg jer” og ég mæli með að þið horfið á kamelåså því þetta er sjúklega fyndið.

P.s. Til hamingju með afmælið í gær, Sigrún mín

Halla

mánudagur, október 22, 2007

Kamelåså!!

Þetta er svo viðbjóðslega fyndið. Ég, Halla og Sigrún erum búnar að grenja úr hlátri yfir þessu. Tékkið á þessu




Kv. Ragna

miðvikudagur, október 03, 2007

Fréttaskot

Það er svolítið merkilegt hvað Mið-Austurlönd eða Arabar voru hér á árum áður langt á undan Evrópuþjóðum hvað varðar hernað, efnahag, listir og vísindi en eitthvað gerðist sem olli því Vestrænar þjóðir náðu að vinna stríð eftir stríð og unnu lönd sín tilbaka og fóru að komast langt fram úr í viðskiptum og vísindum.

Ástæðan fyrir því að ég er að velta þessu fyrir mér er sú að ég er að lesa bók eftir Bernard Lewis sem heitir ´What Went Wrong?' sem fjallar um viðbrögð Mið-Austurlanda við þessum breytingum og hvernig þeir skildu Evrópskan vopnabúnað, iðnað, ríkistjórnir, menntun og menningu. Þetta var mjög skemmtileg lesning því að munurinn á þessum tveimur heimum er svo mikill og maður fær meiri skilning eftir svona lestur. Höfundur bókarinnar er prófessor í Princeton Háskóla og hefur skrifað margar bækur um sögu Araba, Islam og margt fleira tengt þessu. Það vill nefnilega svo skemmtilega til, fyrir Lewis, að hann skrifar bókina fyrir 11. september og hann hefur sko eflaust nýtt sér það í markaðsetningu bókarinnar þ.e.a.s. að hann vissi að það væri eitthvað að. En þessi lesning var nú reyndar skyldulesning þar sem ég á að skrifa ritgerð út frá bókinni þar sem ég þarf að gera grein fyrir hugtakinu "Westernization" og menningarlegri þróun Mið-Austurlanda og Vesturlanda. Ég verð að segja að mér finnst þetta mjög spennandi og er fegin að hafa fengið þetta ritgerðarefni en ekki t.d. aðskilnað ríkis og kirkju sem var hrikalega leiðinlegur kafli.

Þetta var nú bara smá "hugmynd" af því sem maður er að gera í skólanum þessa dagana. Annars unnum við okkar fyrsta leik síðasta miðvikudag. Vorum nefnilega að byrja með nýtt ellefu manna lið þar sem við erum svo margar og þurftum því nánast alveg að byrja frá grunni þ.e.a.s. í nýrri seríu og með lið sem hefur ekki æft saman áður. Þannig að þetta var búið að vera skrautlegt fram að þessu en liðið sem að við unnum er í öðru sæti í seríunni þannig að við ættum að vera í ágætis málum. Ragna skoraði fyrsta markið en það var ansi flott og ég hef heyrt fólk tala um mark ársins :) Frábært hjá henni. Annað markið kom úr hornsendingu frá mér en Ann T. náði að setja hausinn í boltann sem endaði svo með sjálfsmarki. Svo að við systur áttum alveg okkar þátt í þessum sigri :) og auðvitað Sigrún líka sem stóð eins og klettur í markinu og varði hvert skotið á fætur öðru og var meira segja farin að fórna sér ansi mikið undir lokin en hún fékk rosa dúndru í andlitið og kom þ.a.l. í veg fyrir mark. Meiri naglinn.

Á dagskránni eru svo tónleikar með Pétri Ben í Voxhall á laugardaginn og svo er alveg að koma haustfrí.......jibbí.

Hafiði það gott, gæskurnar

Halla