Halla og Ragna blogga frá Árósum

þriðjudagur, maí 29, 2007

Ég auglýsi eftir sjálfsaga og einbeitingu, endilega látið mig vita ef þið vitið hvar svoleiðis fæst.

Eins og alltaf þá er ég búin að bíða með allt fram á seinustu stundu, er rosalega góð í því, þannig að þessi mánuður fram að 20. júní verður algjört helvíti í BA-skrifum og að læra fyrir skriflega og munnlega prófið í arabísku. En eftir það verður líka bara gaman! Bara rétt rúmlega mánuður í Roskilde Festival og svo heim á Djúpavog!

Það sem við systur erum annars búnar að vera að bauka upp á síðkastið (allavega allt annað en það sem við eigum að vera að gera). Við kíktum til Cambridge í heimsókn til Regínu og Bjössa. Það var rosalega gaman. Cambridge er alveg frábær staður og þvílík saga þarna. Við fórum í punting (sigla á bát eftir á, svoldið eins og gondólarnir í Feneyjum), fórum út að borða á Alsýrskan veitingastað og töluðum og töluðum og töluðum er ekki frá því að við þrjár systurnar höfum verið með harðsperrur í kjálkunum eftir þessa helgi.

Valdís kíkti í heimsókn til Árósa helgina 17.-20. maí. Hún og Soffía kepptu með okkur og nokkrum öðrum íslenskum stelpum í Hasle Cup sem er árlegt 7 manna fótboltamót hérna. Okkur til mikillar furðu voru þvílíkt góð kvennalið með í þetta skiptið. 2 lið voru t.d. með stelpum sem hafa verið að spila með U16 og U18 hérna í DK. Þetta átti nú bara að vera svona afslappað og gaman og að drekka bjór og svona en við skemmtum okkur alveg ágætlega þrátt fyrir engan sigur og nokkur jafntefli. Toppur helgarinnar var samt án efa arkítektarpartýið þar sem það fór ekki fram hjá neinum þegar Íslendingarnir mættu á staðinn með tilheyrandi látum :) Við erum æðisleg, okkur finnst það allavega.

Svo voru úrslitin í Meistaradeildinni og fórum við nokkrar úr fótboltanum saman ásamt Steinunni og horfðum á leikinn á írskum pöbb niðrí bæ. Því miður gekk okkar mönnum ekki nógu vel en við létum það ekkert á okkur fá.
Við fórum líka á FusionFest sem voru tónleikar í háskólagarðinum allan daginn þar sem m.a. Nephew og Nik & Jay voru að spila og allavega 10 þúsund manns mættu. Það var þvílík stemning og smá upphitun fyrir Kelduna.
Á laugardaginn var kveðjupartý fyrir Steinunni og Beggu. Steinunn er að flytja til Köben og Begga er að fara heim í sumar. Það verður erfitt að sjá eftir Steinunni þar sem hún er dyggur djammfélagi með meiru en vona að hún hafi það gott í Köben og við komum að sjálfsögðu í heimsókn til hennar.

Verð að halda áfram að læra, Halla var að setja inn myndir þannig að endilega kíkjið á Myndasíðuna okkar undir 2007.
Sjáumst í Við Voginn í sumar :)

Ragna kveður í bili

miðvikudagur, maí 02, 2007

Do You Know the Way to San José..tra..la..la..la..la

Maður hálfskammast sín fyrir þetta æðislega veður sem er búið að vera hér síðustu daga. Ef síðustu vikur apríl mánaðar voru svona þá get ég ekki beðið eftir maí mánuði... Af því tilefni var náttúrulega splæst í sumarkjól eða kjólum þrátt fyrir bága fjárhagsstöðu en maður á nú alveg skilið smá sumargjöf og öll svörtu fötin mín eru bara ekki að gera sig í svona hita.Ég og Ragna skelltum okkur á tónleika með Midlake síðasta laugardag í Voxhall. Þeir brugðust ekki vonum okkar og voru dúndurgóðir. Ég var bara mest hissa á því hvað það voru fáir en mjög notalegt að þurfa ekki að vera í einhverjum troðningi.Á sunnudaginn kepptum við leik á móti ASA. Þetta lið var með jafn mörg stig og við fyrir leikinn svo að við máttum búast við jöfnum leik. Sem betur fer höfðum við betur eða unnum 2-0 þannig að við erum núna efstar í okkar seríu.


Á morgun er hinn árlegi kapsejlads eða kappróður milli háskóladeilda í Árósum. Þá mæta örugglega um tíu þúsund manns í háskólagarðinn og drekka bjór og hafa gaman. Það eru alls konar uppákomur og ég er mjög spennt fyrir þessu þar sem þetta er í fyrsta skipti sem ég fer. Stuðið byrjar klukkan tólf um hádegi og stendur fram á nótt.

Á föstudaginn ætlum við Ragna svo að fara til Cambridge og heimsækja Regínu og Bjössa enda ekki langt þangað til þau flytja heim svo að það er ekki seinna vænna en að skella sér til þeirra. Við hlökkum mikið til að sjá ykkur :)


En annars óska ég ykkur öllum góðrar helgar

Halla