Halla og Ragna blogga frá Árósum

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Tveir dagar í heimkomu!


laugardagur, nóvember 25, 2006

Túristast í Caíró

Það hefur sko ekki farið fram hjá okkur að það sé verið að gera upp íbúðina fyrir ofan okkur. Við mættum einum vinnumanninum í stigaganginum um daginn og hann var á táslunum! Í smíðavinnu!
Svo vorum við að labba fyrir utan bygginguna í sakleysi okkar þegar nokkrir múrsteinar hrynja niður fyrir framan okkur og á eftir fylgdi fullt af drasli. Þá henda þeir þessu bara niður útum gluggan og eru ekkert að athuga hvort það sé eitthvað fólk fyrir neðan og hefur þvotturinn okkar líka orðið fyrir barðinu á þessum hreinsunum hjá þeim. Það er svoldið margt hérna í Egyptalandi sem við skiljum ekki alveg.

Í síðustu viku var seinasti skóladagurinn hjá okkur, ilhamdulillah, ilhamdulillah!
Þó svo að það sé búið að vera voða gaman í skólanum þá vorum við líka mjög fegnar að vera búnar. Þetta er búið að vera mjög strembið enda erum við búnar að læra þvílíkt mikið á þessum tveim mánuðum.
Pabbi og Regína komu í síðustu viku og svo förum við öll saman heim til Íslands aðfaranótt fimmtudags, jibbí!
Það er stíft prógramm hjá okkur núna. Við erum búin að fara að sigla á Níl og í gær skoðuðum við pýramídana, spinx og fórum í úlfaldareiðtúr sem var reyndar ótrúlega erfitt því við systur vorum allar að drepast úr harðsperrum í dag en pabbi fann auðvitað ekki fyrir neinu.
Í dag skoðuðum við "Old Cairo", Mohammed Ali moskuna og borgarvirkið. Á morgun ætlum við svo í dagsferð til Alexandriu og skoða okkur aðeins um þar. Hlökkum til að sjá muninn á Caíró og Alexandriu tveimur stærstu borgunum í Egyptalandi. Höfum heyrt frá fólki, sem hefur verið þar, að þetta séu svo ólíkar borgir.


Það er svoldið gaman að sjá hvernig pabbi og Regína eru að upplifa allt hérna í Caíró því við erum búnar að vera hérna í svoldinn tíma og þau eru svo spennt yfir öllu og finnst allt svo merkilegt og við erum orðnar svoldið þreyttar á þessari borg, menguninni, hávaðanum, peningaplokkinu og fleiru. Kannski virkum við svoldið kaldar núna miðað við hvernig við vorum fyrst en þannig verður maður stundum líka bara að vera.
En þetta er líka búið að vera þvílíkt þolinmæðispróf fyrir okkur tvær og held ég að við höfum bara staðist prófið ágætlega.

Við hlökkum rosa mikið til að komast heim. Við erum t.d. ekkert að upplifa neina jólastemningu hérna því það eru ekki haldin jól hérna þannig að það verður svoldið skrýtið að koma heim og allt er skreytt og jólalög í útvarpinu. Og svo er spurning hvort við eigum eftir að fá sjokk yfir kuldanum því það virðast allir vera að kvarta yfir kulda heima og við erum náttúrulega ekki búnar að upplifa neitt undir 20° hita hérna. En það verður bara þvílíkur munur að geta andað að sér fersku lofti og ekki koma inn og það sé mengunarlykt af fötunum okkar!

Reynum að blogga allavega einu sinni í viðbót áður en við förum heim,

Ragna og Halla


föstudagur, nóvember 17, 2006

Inshallah!

Þetta er orð sem að maður heyrir ekki ósjaldan hérna enda er þetta inshallah samfélag. Inshallah þýðir í rauninni "ef Guð lofar" eða "God´s willing".

Settum inn þessa mynd af söngkonunni Umm Kulthum en hún er óneitanlega dýrkuð hérna. Flestir leigubílsstjórarnir hlusta á kassettur með henni, hækka í botn og syngja með.
Við furðum okkur stundum á því að miðað við fjölda starfsmanna á hverjum stað og ekki mikils fjölda kúnna hvað þjónustan getur gengið ótrúlega hægt. Það getur tekið allt upp í 20 mínútur að fá einn kaffibolla. Það er heldur ekki óalgengt að fjórir afgreiði mann í einu en samt fær maður ekki það sem maður pantaði en þá er maður hvort sem er búinn að bíða svo lengi að manni er nokkuð sama, étur eða drekkur hvað sem að kjafti kemur. Við erum allavega alltaf að sjá það meira hvað við Íslendingar erum með háan "standard" í öllu sem að við gerum. Við veitum yfirleitt mjög góða þjónustu og maturinn okkar er gríðarlega góður.

Í skólanum sem við erum í er fólk frá öllum löndum t.d. Ameríkanar, Spánverjar, Bretar, Frakkar o.fl. Reyndar er áberandi mikið af Ameríkönum hérna. Fólk er þarna af ýmsum ástæðum. Sumir vegna vinnunnar t.d. diplómatar hjá sendiráðum, blaðamenn, rithöfundar, nemendur og Arabar sem hafa alist upp í öðru landi og telja sig jafnvel ekki vera Araba en vilja læra tungumálið. Einn sem er með okkur í bekk í egypsku (talmálinu) heitir Josh og er rithöfundur. Hann er hérna í rannsóknarvinnu vegna bókar sem hann er að fara að skrifa. Hann hefur upplifað margt áhugavert hérna vegna rannsóknarvinnurnar.
Hann sagði okkur frá því að hann fór í heimsókn í fangelsi hérna með nokkrum öðrum aðilum. Þeir fóru með mat og fleira handa föngunum því að maturinn í fangelsinu er víst ógeðslegur og fangarnir mega elda sjálfir en þá þurfa þeir að kaupa matinn sjálfir og það getur verið mjög erfitt að redda því og örugglega dýrt fyrir þá. Áður en Josh fékk að fara inn þá var leitað á honum og skorið í allan mat til að ganga í skugga um að það væri ekki verið að smygla neinu inn. Eftir það fór hann upp í eins konar lest sem hann lýsti sem svona lítilli lest sem rúntar um í skemmtigörðum og máluð í alls konar litum sem hljómaði mjög kaldhæðnislega. Hann sagði okkur frá einum fanganum þarna sem hann talaði við og kom hingað frá Nígeríu fyrir átján árum með nokkrum vinum sínum. Einn vinur hans smyglaði heróíni inn í landið og reyndi að selja það en var tekinn. Í stað þess að að handtaka bara þann sem að reyndi að selja heróínið þá var allur vinahópurinn handtekinn og þessi tiltekni maður sem Josh talaði við fékk 25 ára dóm og er þegar búin að afplána 18 ár. Hann má fá heimsókn á tveggja vikna fresti og í næsta mánuði kemur pabbi hans að heimsækja hann í fyrsta skipti og verður hér í mánuð svo að hann getur hitt hann tvisvar.
Í fangelsinu búa þeir til alls konar hluti eins og perluveski og geta selt þá til þess að eignast smá pening.

Við þurfum klárlega að fylgjast með því þegar þessi bók hans Josh kemur út.

Við fórum niðrí bæ í gær með strák sem er með Höllu í bekk og er frá Alsír en ólst upp í Frakklandi. Hann er aðeins meira inní öllu hérna enda mjög óhræddur við að prófa allt og margir halda að hann sé Egypti sem getur verið ágætt stundum. Hann fór með okkur á stað sem að heitir Al Hurriya (frelsið). Þetta var mjög spes. Þetta var mjög stórt rými með fullt af borðum og stólum og nokkrum ísskápum. Annað var ekki. Þetta er nánast úti því að það voru ekki gluggar allstaðar og maður sá ketti rölta þarna um. Þetta er staður þar sem að maður getur upplifað mjög "lokal" stemningu. Það var frekar subbulegt þarna og mikið af fólki en mjög fáar konur. Þetta er víst ekki alltaf svona en þar sem það var föstudagur daginn eftir sem eru frídagar hérna þá voru óvenju margir. En þegar við fórum að líta í kringum okkur þá var mikið af útlendingum þarna og okkur var sagt að þarna kæmu egypsku blaðamennirnir og listafólkið að ræða málin. Þarna sér maður líka múslimana drekka sem að sumum þykir skrítið því að þeir halda að múslimar drekki ekki. Eftir einn bjór fórum við á annan stað sem heitir Stella og hann er pínulítill og þar kemur líka mikið af innfæddum og þar eru yfirleitt sömu kúnnarnir en má líka sjá Ameríkana og Japana á virkum dögum. Þar byrja yfirleitt fastakúnnarnir að syngja og það myndast skemmtileg stemning. En það er nú eiginlega ekki gert ráð fyrir kvenfólki þarna því við þurftum að fara á veitingastaðinn við hliðiná til að nota klósettið því að það var ekkert kvennaklósett á staðnum enda engan veginn pláss fyrir það.

Núna er aðeins vika eftir af skólanum og Regína og pabbi koma hingað á þriðjudagskvöldið svo að við höfum rúma viku áður en við komum heim til að "túristast" með þeim. Getum ekki farið heim án þess að kíkja á eitthvað af þessum sögufrægu stöðum.

Góða helgi!

Halla og Ragnaföstudagur, nóvember 10, 2006

Sexy, sexy, sexy!

Af hverju þurfa egyptar að gera allt með látum?!
Þetta er orðið svoldið pirrandi.
T.d. stendur karl niðri á götu og þarf að tala við konuna hérna uppá sjöttu hæð. Í staðinn fyrir að fara uppá sjöttu hæð og tala við hana þá öskrast þau á milli og maður heldur að eitthvað alvarlegt hafi gerst eða að þau séu að hnakkrífast en nei nei þau eru bara að spjalla.
Það er ekki skrýtið að við séum stundum smeyk við araba því við höldum alltaf að þau séu reið eða að rífast en svona tala þau bara saman.
Barnaskólinn hérna hliðiná er skrýtnasti skóli sem við vitum um því það eru alltaf frímínútur sem hlýtur líka að vera mjög gaman. Og allir hafa símann sinn stillt á LOUD. Það fer líka ekki framhjá neinum þegar einhverjir eru að gifta sig hérna því þá keyra allir í halarófu og flauta og flauta og FLAUTA!! Og það er ALLTAF verið að gifta sig hérna. Við þurfum að hafa sjónvarpið stillt á hæsta til að geta heyrt eitthvað í því, því hávaðinn frá götunni er svo mikill.
Svo veldur þetta keðjuverkun þannig að allir þurfa að tala hærra, hafa hærra í tónlistinni o.s.frv. Þannig að næst þegar við hittum ykkur ekki láta ykkur bregða ef við öskrum á ykkur :)

Í síðustu viku var verið að frumsýna mynd í bíói hérna niðri í bæ með frægri magadansmær sem heitir Dína. Hún var að sjálfsögðu viðstödd frumsýninguna og eftir myndina þá byrjuðu allir að klappa og hún stóð upp og byrjaði að dansa og það myndaðist þvílík stemning í bíósalnum nema hvað að strákarnir sem voru þarna æstust eitthvað upp við þetta og byrjuðu að reyna að snerta Dínu og endaði þetta með því að henni var fylgt út með aðstoð lífvarða hennar. Unga fólkið í bíóinu hélt áfram að dansa og strákarnir urðu enn æstari og byrjuðu að þukla á stelpunum sem endaði með því að þær urðu allar mjög skelkaðar og hlupu út úr bíóinu og út á götu og strákarnir á eftir þeim. Lögreglan þurfti að skakka leikinn og var þetta þvílikur skandall hérna í Caíró.
Í Egyptalandi eru lög um það að fólk má ekki sofa saman fyrr þau eru gift
Pör, meira að segja þau sem eru gift, mega ekki haldast í hendur eða kyssast úti á götu það er mjög illa liðið þ.e.a.s. ef þau eru egyptar annað gildir þó um útlendinga.

Kynlífsfræðsla hérna virðist ekki vera í forgangi og þau læra örugglega flest um kynlíf í gegnum sjónvarpið og internetið, sem er örugglega mjög hollt ekki satt?
Flestir halda t.d. að ameríkanar stundi alltaf kynlíf og geti alltaf sofið hjá. Flestir amerísku strákarnir hérna hafa sömu söguna að segja um viðbrögð egyptskra manna þegar þeir segjast vera frá Ameríku “aaa... America. You have sexy all the time, always have sexy, sexy, sexy, sexy” og með viðeigandi látbragði. Og eru vestrænar konur hérna álitnar mjög “easy” þannig að það er ekkert sérlega gaman fyrir tvær ljóshærðar stelpur eins og okkur að labba um göturnar hérna það er yfirleitt alltaf verið að kalla á okkur og svona þó svo að þetta sé alveg meinlaust þá er þetta samt mjög pirrandi. Sum svæði eru þó betri en önnur og reynum við því bara að hanga þar. Þetta er samt ágætt fyrir okkur því þetta gerir mann bara sterkari og geðillari hehe... neinei.
En við þurfum reyndar að taka fram að þetta á aðallega við um fátæka fólkið sem hefur ekki fengið góða menntun og veit hreinlega ekki betur. En við erum svo sem ekkert skárri höldum að allar konur með slæðu séu kúgaðar, sem er að sjálfsögðu ekki rétt.

Annars biðjum við bara að heilsa úr hávaðanum hérna í Caíró, Ragna og Halla

mánudagur, nóvember 06, 2006

Izzaykum?

Þá eru mamma og Gunnhildur farnar. Þetta var nú aldeilis ævintýri hjá þeim. Þær komu s.l. laugardagskvöld og við sendum mann eftir þeim á flugvöllinn sem Zakia vinkona okkar fær oft til þess að sækja gestina sína. Þannig að þarna beið maður með skilti sem á stóð Freyja og þær vissu ekkert af því að við kæmum ekki svo að mamma hélt að það væri ferðaskrifstofa sem héti Freyja og fannst það stórmerkilegt. En það kom fljótt í ljós að þessi maður var á okkar vegum svo að hann reddaði öllu fyrir þær og þær voru komnar heim til okkar örugglega innan við klukkutíma frá því að þær lentu.

Þar sem að við vorum eða áttum að vera í skólanum þá gátum við ekki mikið verið með þeim á daginn en þær voru duglegar að fara sjálfar, sem getur verið svolítið mál, og þær fóru náttúrulega að skoða pýramídana, egypska safnið, í siglingu á Níl og Khan al Khalili sem að er hverfi með fullt af mörkuðum og m.a. kaffihúsi sem að er búið að vera opið á hverjum degi og hverri nóttu í yfir tvöhundruð ár. Þannig að þær fóru heim hlaðnar minningum og minjagripum frá Egyptalandi.

Þegar maður fer til Egyptalands þá þarf maður að fá sér vegabréfsáritun til þess að komast inn í landið. Þetta gildir yfirleitt í mánuð nema maður hafi reddað því áður en maður kom eins og margir gera. Eftir þennan mánuð þarf að framlengja vegabréfsáritunina í ráðhúsinu hérna sem er niðrí bæ svo að það sé hægt að komast aftur úr landinu. Þetta þurftum við náttúrulega að gera og við vorum búnar að heyra að þetta væri algjört helvíti svo að þetta var ekki beint tilhlökkunarefni. Þetta virkar þannig að það eru fimmtíu básar og þarna er troðið af fólki frá öllum þjóðum og heilu fjölskyldurnar oft. Sumir að fá vegabréfsáritun og aðrir að fá landvistarleyfi eða sækja um hæli sem flóttamenn o.s.frv. Enginn fer í röð þannig að það þarf einfaldlega að troðast. Þegar loks röðin er komin að manni sjálfum þá er manni bent á að fara á annan bás og ef maður spyr spurninga þá er erfitt að fá svör og sumir sem vinna þarna tala ekki ensku. En í þetta skipti þá var gott að skera sig úr og þetta gekk ótrúlega vel miðað við það sem að við höfðum heyrt. Svo að nú erum við komnar með vegabréfsáritun fyrir næstu 6 mánuði. Ef að þetta hefði ekki gengið vel þá má alltaf reyna að borga aðeins meira og sjá hvað gerist. Það virðist allavega vera mjög algengt hérna. Frekar spillt allt saman. Næst þegar við eigum erindi hjá Sýslumanninum í Reykjavík og hlutirnir eru ekki ganga hratt þá reynir maður kannski að renna 500 kalli að afgreiðslumanninum og sjá hvað gerist. Mjög líklega verður það ekki vel liðið.

Það er mjög gaman að upplifa lífið eftir Ramadan þar sem við komum hingað þegar Ramadan var byrjaður og vissum í raun ekkert hvernig venjulegt líf í Cairó væri. Við vorum alltaf einar inná kaffihúsum og veitingastöðum að degi til. Núna er allt komið í eðlilegt form aftur. Það er samt pínu skrítið á sjá fólk borðandi og drekkandi að degi til sérstaklega kennarana en það er líka mjög fínt því þá getur maður hætt að hafa samviskubit yfir að borða og drekka fyrir framan þau. Þegar Ramadan var þá var “rush hour” um 4 leytið á daginn því allir voru að drífa sig heim fyrir Iftar og svo aftur um 11-12 leytið á kvöldin en núna er “rush hour” allan daginn sem er mjög pirrandi.
Allt í einu fórum við líka að taka eftir verslunum sem selja áfengi, ilhamdulala. Þessar verslanir heita Drinkies og eru eins ÁTVR heima nema að þær eru mjög litlar og selja 4 tegundir af bjór og nokkrar tegundir af léttvíni og vodka. Mjög fyndið miðað 20 milljóna manna borg.

Fórum í fyrsta skiptið á djammið á föstudaginn. Það var partý hjá Kevin sem að er í sama bekk og Halla. Hann býr með tveimur þjóðverjum og einum ameríkana. Þarna voru aðallega þjóðverjar og þetta var bara fínasta partý. Eftir partýið fórum ég, Ragna, Luke (er með Rögnu í bekk), Darren (er með Höllu í bekk og býr með Luke) og Martin (frá Argentínu og er með Rögnu í bekk) á stað niðrí bæ og fengu okkur nokkra bjóra og sáum sólina koma upp. Mjög skrítið að sjá Cairo á þessum tíma dags því að það var allt svo rólegt og notalegt. Mjög mikil andstæða miðað við daglegt líf hérna.

Settum inn myndir sem mamma tók þegar hún var hérna og nokkrar myndir frá djamminu á föstudaginn.

Knús, Halla og Ragna